144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:29]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki sem tekur á mörgum ólíkum þáttum laganna, starfsleyfi, áhættustýringu, breytilegum starfskjörum, meðferð eignarhluta og innleiðingu sérstakra eiginfjárauka, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er mjög stórt og flókið lagafrumvarp og ljóst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd á mikið verkefni fyrir höndum að skoða alla þætti þess.

Það hefur margt áhugavert þegar komið fram hér við 1. umr. Hv. þingmenn sem hafa talað og flutt ágætar ræður telja margt í frumvarpinu augljóslega til bóta en hafa líka talað um að sumt þurfi að skoða betur í vinnu nefndarinnar. Það verður sannarlega gert. Menn hafa kastað fram spurningum eins og þeirri hvort í frumvarpinu felist einhvers konar framsal fullveldis. Í greinargerðinni kemur fram að svo sé ekki, alla vega stangist það ekki á við stjórnarskrá, en það er að sjálfsögðu eðlilegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fái sérstaka kynningu á því álitamáli.

Svo maður stikli á stóru um einstaka greinar frumvarpsins þá vil ég gera að meginefni starfskjörin, eiginfjáraukana og neytendavernd en ég get ekki séð að við gerð þessa frumvarps hafi verið haft samráð við Neytendasamtökin eða þá sem eiga að gæta hagsmuna almennings í landinu sem hlýtur að vera aðili að þessu máli. Hins vegar hefur náttúrlega verið haft fullt samráð við Samtök fjármálafyrirtækja sem hafa einnig mikilla hagsmuna að gæta. Það verður að sjálfsögðu hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar að fá umsagnir frá hinum ýmsu samtökum sem lúta neytendavernd og gæslu á hagsmunum skattgreiðenda sem að málinu geta snúið.

Varðandi þær spurningar sem vakna við lestur frumvarpsins þá er hér grein þar sem fjallað er um viðvarandi mat á hæfi eigenda, þeirra sem eiga virka eignarhluti. Það er hnykkt á því að viðvarandi mat skuli vera á hæfi þeirra. Þetta er í 19. gr. frumvarpsins, sem verður 52. gr. laganna. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að bæta við þessa grein ákvæði til að sporna við því að menn setji upp einhvers konar sýndarmilliliði, sem hafi einhvers konar sýndarhæfi en eru í eigu vanhæfra eigenda. Það gæti verið fullt tilefni til að setja slíkt kirfilega inn í þessi lög.

Svo maður víki að breytilegum starfskjörum þá er um að ræða töluverða breytingu í frumvarpinu þó að fram hafi komið að hér sé enn verið að hafa hlutina töluvert strangari en reglugerðir leyfa og strangari en gert hefur verið í innleiðingu annars staðar á Norðurlöndunum. Maður veltir því kannski fyrir sér hvort það sé heppilegt að þetta fordæmi komi einmitt frá Evrópska efnahagssvæðinu eða ESB, þar virðast menn ekki hafa miklar áhyggjur af þessu þó að þeir séu í miklum vanda. Hérna höfum við brennt okkur á því að tekin var ótæpileg áhætta í rekstri íslenskra fjármálafyrirtækja. Það var því að ríku tilefni sem settar voru skorður við því og hámark 25% á föst laun, þ.e. að breytileg starfskjör mættu ekki vera meiri en 25% og það gilti um alla starfsmenn. Um þetta er fjallað í reglugerð nr. 700 frá júní 2011. Þar er farið mjög vel yfir þetta, mjög góð reglugerð og margt úr henni virðist vera tekið inn í þetta nýja frumvarp en þó með ákveðnum breytingum. Eins og fram hefur komið í umræðunni þá er hér verið að víkka út svið breytilegra starfskjara þannig að þeir sem áður áttu að hafa eftirlit með framkvæmd þessara kaupaukakerfa, t.d. stjórnarmenn og þeir sem sinna áhættustýringu, regluvörslu og innri endurskoðun, geta nú komið til greina varðandi breytileg starfskjör og geta fengið allt að 25% kaupauka. Þetta vekur upp ýmsar spurningar eins og t.d. hvort stjórnarmönnum verður falið að fjalla um bónuskerfi sem þeir sjálfir geta notið góðs af. Það þarf að skoða mjög vandlega. Ég hef mínar efasemdir um þetta og þær hafa svo sem verið viðraðar áður í þingræðum. Í nýrri grein sem verður e-liður 57. gr., er fjallað um að ekki skuli greiða út kaupauka nema það sé óhætt, þ.e. ekki sé versnandi útlit um afkomu fyrirtækisins. En hver á þá að standa upp og segja að svo sé? Er það innri endurskoðun? Á hún þá að segja: Við höfum komist að því að við eigum ekki að fá neinn kaupauka í ár vegna þess að útlitið er ekki gott? Það er sagt að ef menn fá greitt fyrir að skilja ekki eitthvað þá sé mjög erfitt að fá þá til að skilja, t.d. að sjá að slæm afkoma sé fram undan ef þeir fá borgað fyrir að sjá það ekki fyrir sér. Þetta eru afskaplega óheppilegir kaupaukar.

Einnig gerist það með þessu frumvarpi að almennir starfsmenn, þ.e. aðrir en stjórnendur og stjórnarmenn og þeir sem eru í mikilvægum stjórnunarstöðum, geta verið með allt að 100% til 200% kaupauka ofan á laun sín. Þó að það auki kannski ekki áhættu fyrirtækisins sjálfs þá getur það aukið áhættuna sem neytendum er boðin með því að eiga samskipti við ráðgjafa, gjaldkera og aðra sem selja vörur fjármálafyrirtækja til einstaklinga og neytenda, ef þeir geta haft af því svona mikinn hag að einhverjir ákveðnir hlutir séu seldir umfram aðra. Ég held að þurfi að íhuga það neytendasjónarmið.

Hér hefur komið fram að gera mætti greinarmun á stórum kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum og smærri fyrirtækjum varðandi kaupaukastefnu og þá hluti. Það er ekki gert í frumvarpinu en ég held að tilefni sé til að skoða það sérstaklega. Það er alveg rétt sem fram hefur komið að það er sérstaklega hættulegt fyrir skattgreiðendur og samfélagið í heild ef mjög stórar bankastofnanir eða fjármálastofnanir riða til falls, en hið sama gildir ekki um miklu smærri fyrirtæki þó að áfram geti gilt það sem ég nefndi áðan varðandi neytendasjónarmiðin. Ég er ekki talsmaður þess að hafa þetta óþarflega strangt, ég held að slík forsjárhyggja sé ekki góð, en það er engin ástæða til að setja upp hvatakerfi sem leiðir til áhættutöku sem getur haft afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni eða skattgreiðendur með falli stórra fyrirtækja. Við höfum kynnst því.

Ef ég heyrði rétt þá sagði hæstv. ráðherra í andsvari fyrr í dag að hann væri einmitt opinn fyrir breytingum á þeim liðum sem lúta að breytilegum starfskjörum.

Þá ætla ég að víkja aðeins að eiginfjáraukunum. Þar er margt til bóta. Það er verið að innleiða nokkra nýja eiginfjárauka til þess að styrkja stöðugleika fjármálafyrirtækja og fjármálakerfisins. Ég vil vísa til umfjöllunar á bls. 35 í frumvarpinu og er mjög góð að mínu mati, en þar segir, með leyfi forseta:

„Nýlegar hagrannsóknir benda til þess að þjóðhagslega hagkvæmt sé að hlutfall eigin fjár í fjármögnun banka sé ekki aðeins mun hærra en það var fyrir hrun fjármálakerfisins heldur einnig hærra en þau lágmörk sem sett eru í alþjóðlegu regluverki.“

Þetta gæti t.d. þýtt að í stað þess að vera með 12–15% eiginfjárkröfu, ef allir þessir sérstöku eiginfjáraukar eru lagðir saman, ættum við frekar að horfa á 20–30% eins og gerist í venjulegum fyrirtækjum, það sé í raun og veru engin góð ástæða til þess að hafa svona næfurþunnt eigið fé í fjármálafyrirtækjum önnur en sú að auka hagnað þeirra sem stýra þeim og þeirra sem eiga fyrirtækin. Afleiðingin af þeirri stefnu er náttúrlega sú að þegar slík fyrirtæki falla eru það skattgreiðendur sem taka skellinn en stjórnendurnir hafa fengið bónusana og notið uppsveiflunnar.

Ég vil, með leyfi forseta, benda á bók sem kom út 2013 sem heitir The Bankers' New Clothes eftir Anat Admati og Martin Hellwig, og hefur vakið mikla athygli og fengið mjög góða umfjöllun, þar á meðal seðlabankastjóra og Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Bókin fjallar að mestu um eiginfjárkröfur sem gerðar eru til banka og í henni eru færð mjög góð rök fyrir því að þær skuli vera einmitt 20–30%, enda sé hlutafé ekki dýrt og útlán muni ekki minnka og það verður jafn góður aðgangur að lánsfé og áður. Mjög áhugaverð. Það er gerð grein fyrir þessari bók í vefriti Fjármálaeftirlitsins þar sem Guðmundur Örn Jónsson, sérfræðingur á greiningasviði, skrifar útdrátt úr bókinni sem ég get mælt með við þingmenn að þeir kynni sér. Það er hægt að finna vefritið á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, 2. tölublað frá júlí 2014.

Svo ég stikli á stóru í útdrætti um bókina og tek saman heildarrökin þá er hrakin sú fullyrðing að hlutafé sé dýr fjármögnun fyrir banka, ef litið er fram hjá þeim hag sem bankar hafa skattalegri meðferð hlutafjár, okkur er náttúrlega sjálfum í lófa lagið að gera breytingar á því. Höfundar segja að ástæða þess hve vextir séu lágir sé að lánardrottnar bankanna hafi ástæðu til þess að ætla að ríkisvaldið greiði skuldir bankanna ef þeir geti það ekki sjálfir eins og gert hefur verið ítrekað í gegnum tíðina. Því sé vaxtakostnaður bankanna í raun niðurgreiddur af ríkisvaldinu sem hvetur bankana til að hafa eigið fé sitt eins lágt og mögulegt er. Af þeim sökum sé eigið fé mun lægra en eigið fé í öðrum atvinnugreinum. Benda höfundar í því sambandi á Apple fyrirtækið sem er algjörlega fjármagnað með hlutafé. Það er mikill misskilningur uppi um að nauðsynlegt sé að taka lán til að geta veitt lán, að sjálfsögðu er hægt að nota líka eigið fé til að veita lán. Eigið fé er ekki aðgerðalaus varasjóður eins og margir vilja halda. Ef svo væri gæti t.d. Apple fyrirtækið ekki gert mikið með 100% eiginfjárhlutfall. Í niðurlagi útdráttar úr bókinni kemur fram að höfundar hennar mæla með því að lágmarkseiginfjárhlutfall nemi 20% og bönkum verði óheimilt að greiða út arð ef hlutfallið er undir 30%. Þetta er það nýjasta og besta og traustasta sem menn eru að velta fyrir sér í kjölfar þeirrar bankakrísu sem hefur geisað í heiminum og við ætlum að leggja til eitthvað um 15%.

Það er sérstakt þegar maður skoðar þá eiginfjárauka sem settir eru fram í frumvarpinu, þótt þeir séu vissulega til bóta, að ekki er lagt til að hækka almennu lágmarkskröfuna um eigið fé, hún er áfram 8%. Síðan kemur kerfisáhættuauki sem getur verið 1%, það er ekkert þak á honum en það þarf að færa rök fyrir því að hækka hann upp í 3% eða 5%. Svíar hafa víst farið með hann að ég held upp í 5%. Hér er fjármálakerfið mjög samansúrrað og tengt innbyrðis og kerfisáhættan er mun meiri hér en annars staðar. Kerfisáhættuauki ætti þess vegna að vera hærri hér en víðast annars staðar. Maður getur séð fyrir sér 5% að lágmarki. Svo eru það kerfislega mikilvægu fyrirtækin, það er sérstakt að þar er sett þak á 2% í frumvarpinu, það er hreinlega bannað að setja hærri en 2% sérstakan eiginfjárauka á stærstu og hættulegustu fyrirtæki sem ættu að hafa mest eigið féð. Hver hefur komið því þannig fyrir? Það eru að sjálfsögðu þau fyrirtæki sem ættu að vera með hæsta eigið féð, það eru fyrirtæki sem mega bara alls ekki falla, vegna þess að skattgreiðendur þurfa þá að koma til bjargar. Það eru líka þau fyrirtæki sem njóta mests ávinnings af því að allir vita að innstæðueigendum þeirra verður bjargað og þess vegna geta þau greitt lægri vexti á innstæður sínar en önnur fyrirtæki. Þau fá ríkisábyrgð á allar sínar innstæður og það er ekki settur meira en 2% eiginfjárauki á þau.

Svo kemur sveiflujöfnunarauki sem er hugsaður sem tímabundin ráðstöfun til þess að takast á við sveiflur í hagkerfinu. Hann getur verið allt að 2,5% nema fjármálastöðugleikaráð leyfi meira. Svo er verndarauki sem allir eiga að greiða sem er 2,5% af áhættugrunni.

Þetta er allt til bóta en ég held að efnahags- og viðskiptanefnd ætti að taka til skoðunar hvort hér þurfi að nauðsynlega að ganga lengra í ljósi reynslunnar.

Hvað varðar neytendavernd þá hefur verið komið inn á það í dag að með 7. gr. frumvarpsins, sem verður 19. gr. laganna, er verið að styrkja hana. Það mætti kannski horfa til þess í vinnu nefndarinnar að styrkja hana enn frekar með tilliti til neytendaverndar. Til dæmis má nefna fallin fjármálafyrirtæki, hvort þau ættu áfram að lúta ákveðnum kröfum um viðskiptahætti sem gilda um fjármálafyrirtæki, þannig að þeir sem lenda í því að vera í viðskiptum við fallið fyrirtæki verði ekki fyrir því að þau virði ekki góðar viðskiptavenjur. Hugsanlega mætti skoða það að setja kröfur um að smálánafyrirtæki séu leyfisskyld starfsemi. Það getur verið að það sé ansi stór og flókin spurning, ég treysti mér ekki til þess að leggja mat á það hér, en það er eitthvað sem mér finnst að mætti skoða í leiðinni.

Tími minn er á þrotum. Ég ætla ekki að lengja þetta frekar en hlakka til að vinna frekar í þessu ágæta frumvarpi í nefndinni og lýk hér máli mínu.