144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi einmitt vekja athygli á þessu. Mig minnir að það hafi verið þannig, þegar þessir kaupaukar komu hér fyrir hrun, að sagt hafi verið að við þyrftum að vera á sama róli og önnur lönd, að þetta þyrfti að vera áþekkt og í öðrum löndum vegna þess að annars færi starfsfólkið annað, það fengi hærri laun annars staðar eitthvað svoleiðis. Mig minnir meira að segja, virðulegi forseti, að starfsmenn Seðlabankans og seðlabankastjórar hafa hækkað í launum upp úr öllu valdi, eins og einhver væri að sækjast eftir þeim, sem ég held nú að hafi samt ekki verið, hér fyrir hrun.

En mér finnst þetta þurfa að vera alveg ljóst. Ég er sammála því að ég velti því sannarlega fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að hafa nokkra kaupauka í bönkunum. Ég velti því alveg fyrir mér. Ég sé ekki ástæðuna aðra en þá að vera að bera sig saman við fólk í öðrum löndum og ég held að það sé kannski engin sérstök eftirspurn eftir þessu fólki þar.