144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet formann efnahags- og viðskiptanefndar til að kynna sér kröfu Bankasýslunnar því að heimildir mínar eru úr skrifum fjármálasérfræðings í fjölmiðlum á síðustu dögum. Ég hef ekki rannsakað þær sjálfur en ég heyri að það kemur formanni efnahags- og viðskiptanefndar verulega á óvart ef rétt er að krafan sé 14,7%.

Ef svo er þá skil ég það þannig að formaðurinn teldi ástæðu til að sú krafa væri lækkuð.

Ég vil spyrja hv. þingmann um annað atriði tengt löggjöf um fjármálafyrirtæki sem ég hef iðulega rætt við fjármálaráðherra og hann hefur tekið býsna vel í, það var upphaflega tillaga frá Tryggva Þór Herbertssyni sem þá var þingmaður. Við þyrftum nauðsynlega að læra það af hruninu að setja skorður við því hve stóran hluta í viðskiptabönkunum einn aðili getur átt. Í Noregi var 10% hámark var í gildi og það var það hlutfall sem hv. þingmaður talaði fyrir og fjármálaráðherra hefur tekið vel í. Ég vil gjarnan heyra álit formanns efnahags- og viðskiptanefndar og forustumanns Framsóknarflokksins í þessum efnum.