144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt. Ef ég man rétt var einhvern tíma reynt að útskýra hugtakið „lykilstarfsmaður“. Það er gert hér í 1. gr. laga um fjármálafyrirtæki í 8. tölulið:

„Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu fyrirtækisins.“

Það er því skýrt í lögunum sjálfum nú þegar.

Hins vegar varðandi „stjórnarmenn“. Ég dreg það í efa, er það rétt að stjórnarmenn geti haft breytileg starfskjör í stjórnarlaunum? (Gripið fram í.) Við skulum fara varlega með það en ef svo er þá er það algjörlega á skjön við venjulega stjórnarhætti. Að öðru leyti get ég ekki svarað, ég er ekki alveg reiðubúinn til að svara á þeim sekúndum sem ég á eftir og tími minn er búinn. Ég hef lokið máli mínu að sinni.