144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmann sem nefndarmann í efnahags- og viðskiptanefnd einfaldlega til þess að kalla eftir þessum upplýsingum þegar málið er til meðhöndlunar, þessum hljóðritunum sem hann vísar til og segir að séu til. Það er svoddan aragrúi af málaferlum í gangi, ég þekki það ekki hvort stefnt hafi verið vegna slíkra mála. En ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta hér eru bónusarnir. Þingmaður spyr: Skiptir einhverju máli hvort fólk er á góðu kaupi eða hvort það fær bónus? Nú er langt síðan ég hef unnið í bónuskerfi, en það er þannig að ég held að við höfum verið miklu duglegri við að koma þorskunum upp á hausarann af því að við fengum bónus ef við vorum duglegir. Þess vegna hlýtur það að skipta máli um svona bónuskerfi að verið sé að hvetja til réttu hlutanna.

Ég held að það hljóti að vera varasamt ef það er, í bónuskerfi hjá starfsfólki sem er að veita viðskiptavinum ráðgjöf, mögulegt að veita starfsmönnunum verulega umbun sem nemur kannski jafn miklu og mánaðarkaupi þeirra, eða jafnvel tvöföldu mánaðarkaupi þeirra, ef þeir ráðleggja viðskiptavininum áhættusamari hegðun en ekki. Ég held að það hljóti að ýta undir það að menn hvetji viðskiptavini sína til að taka meiri áhættu með það fé sem þeir hafa geymt hjá stofnuninni eða eru að ávaxta. Þannig að: Já, ég held að bónuskerfi sé til þess að hvetja til ákveðinnar háttsemi. Þess vegna þurfum við að gæta þess til hvaða háttsemi er verið að hvetja með bónusunum.