144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingum hv. þingmanns, sem ég held að ég muni rétt að sé varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, um að tryggja góða neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég held að það væri auðvitað mikið fagnaðarefni ef um það tækist þverpólitísk samstaða í nefndinni undir forustu þingmannsins að tryggja góða neytendavernd. Það þýðir hins vegar ekki að okkur sé óhætt að hafa í lykilstofnunum á fjármálamarkaði ótakmörkuð bónuskerfi og veiðileyfi á viðskiptavinina. Við þurfum auðvitað engu að síður að huga að því með hvaða hætti og til hvaða hluta við erum að hvetja á fjármálamarkaði vegna þess að í raun og veru er alveg sama hversu vel við tryggjum rétt neytandans, þá er það því miður þannig að það eru ekki allir neytendur sem leita réttar síns. Það skiptir þess vegna máli að fólk fái eins góða ráðgjöf í viðskiptabanka sínum eins og nokkur kostur er. Það er mikill ábyrgðarhluti að búa til bónuskerfi sem geti aukið verulega launagreiðslur ef það stuðlar að því að auka áhættu fyrir viðskiptavinina, þ.e. úr hópi einstaklinganna. Fagfjárfestar og fyrirtæki eiga auðvitað að taka áhættu og efnafólk svo sem, en við erum í þessu sambandi kannski fyrst og fremst að hugsa um að bónusar, hvað varðar ráðgjöf til venjulegs fólks sem ekki hefur þekkingu á fjármálamarkaði, geta verið varasamir. Við þurfum að gæta okkar vel hvernig þeir eru útfærðir.