144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Hér blasti við algjörlega fordæmalaus staða og til ýmissa ráðstafana var gripið sem voru óvenjulegar og sérstakar. Það þýðir ekki að þær hafi verið rangar en þær voru klárlega til bráðabirgða, lausn þar til hægt væri að hafa hlutina eðlilega. Það getur gengið í nokkur ár. Ég held að við hv. þingmaður deilum einfaldlega áhyggjum af því að sex og hálft ár sé orðið býsna langur tími og kannski enn verra að maður sér ekki að ríkisstjórnin hafi neitt á höndum sem bendir til þess að við séum að losna úr því óeðlilega ástandi í bráð. Ég tek undir með þingmanninum sérstaklega hvað lýtur að ríkisábyrgðinni að þar væri þó að minnsta kosti hægt að setja fram einhvers konar áætlun hefði maður haldið, þó ekki væri nema að falla ætti frá ábyrgðinni á einhverju tímabili gagnvart einhverjum tilteknum aðilum, eða til dæmis að greiða ætti fyrir ábyrgðina. Það er náttúrlega þannig að eigendur bæði Arion banka og Íslandsbanka, að mestu leyti erlendir kröfuhafar, eru að hagnast gríðarlega af starfsemi sem í raun og veru þrífst bara sakir ríkisábyrgðarinnar, kannski eðlilegt að taka hreinlega gjald fyrir meðan þeir kjósa að hafa ábyrgð skattgreiðenda á þessum þætti starfsemi sinnar.