144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kom í andsvar við þingmann Sjálfstæðisflokksins áðan, hv. þm. Vilhjálm Bjarnason. Ég spurði hann tveggja spurninga, annars vegar varðandi regluverkið sem kveðið er á um í því frumvarpi sem við erum hér með til umræðu og vék þar sérstaklega að heimildarákvæðum um bónusa til almennra starfsmanna upp á 100%. Þar sem í svar hans fléttaðist upprifjun frá einkavæðingu bankanna upp úr aldamótunum spurði ég hann hvort hann teldi að það hefðu verið mistök að einkavæða og selja alla ríkisbankana. Hann sagði að sú spurning væri svo út í hött að hann hirti ekki um að svara henni, þetta væri eins konar spurningaleikur. Með öðrum orðum, þingmanni Sjálfstæðisflokksins finnst það ekki þess virði við þessa umræðu að ræða eignarhald á bönkum.

Nú er það staðreynd að frammi fyrir hvoru tveggja stöndum við núna, Íslendingar; annars vegar erum við að setja fjármálastofnunum löggjöf, lög og reglugerðarumhverfi, um það hvernig þær eigi að starfa, og hins vegar horfum við til umhverfisins í víðara skilningi. Eigum við að selja hlut ríkisins í Landsbankanum? Það er spurning sem rædd er hér þingi og í samfélaginu almennt og tekist er á um í hvora áttina við eigum að fara.

Í gær var til umræðu hér á Alþingi svokallaður TiSA-samningur, Trade in Services Agreement, sem snýr m.a. að fjármálaviðskiptum á heimsvísu. Menn velta því þar fyrir sér hversu langt við eigum að ganga í þeim efnum að nema brott þröskulda sem standa í vegi fyrir viðskiptum með peninga, með fjármagn. Þessa dagana er verið að reyna að ganga frá öðrum slíkum samningum milli Evrópusambandsins annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar, svokallaður TTIP-samningur, Transatlantic Trade and Investment Partnership. Í dag skrifuðu 375 almannasamtök vestan hafs og austan til þingmanna sinna á Evrópusambandsþinginu annars vegar og Bandaríkjaþingi hins vegar til að hvetja þá til að koma í veg fyrir að það samkomulag næði fram að ganga. (ÖS: Það þýðir ekkert að horfa á mig.) Það er veruleiki sem heimurinn stendur frammi fyrir núna og á að sjálfsögðu heima í umræðu um þessi mál. Í hvora áttina viljum við stefna?

Það er ekki langt síðan að á Íslandi voru reknir ríkisbankar, stórir bankar, Landsbankinn, Búnaðarbankinn, og aldrei þurfti ríkissjóður að hlaupa undir bagga með þessum bönkum utan einu sinni, þá með Landsbankanum í byrjun 10. áratugarins. Hver einasta króna var greidd til baka, hver einasta króna. Við vitum hvað gerðist síðan í kjölfar þess að bankarnir voru einkavæddir. Efnahagskerfið, ekki bara fjármálakerfið heldur efnahagskerfið á Íslandi hrundi með hrikalegum afleiðingum fyrir ríkissjóð. Að sjálfsögðu á að ræða þessa stóru mynd og það erum ekki bara við sem gerum það, heimurinn allur gerir það. Verið er að ræða þessa hluti í Evrópu, innan Evrópusambandsins og utan og einnig í Bandaríkjunum og ekki bara á grundvelli þeirra samninga sem ég vísaði til. En þetta var sem sagt veruleikinn sem Íslendingar bjuggu við fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Við stóðum hér í þingsal og ræddum í langan tíma um hvort það hefði verið siðlegt eða ósiðlegt af bankastjórnendum að bjóða mönnum í laxveiðar. Það var mesta spillingin sem komst inn á borð hér.

Auðvitað voru mörg mál sem vélað var um í gömlu ríkisbönkunum sem kunna að hafa orkað tvímælis, en að bera þann tíma saman við það sem á eftir fylgdi er að bera saman appelsínur og epli, gerólíka heima. Og nú spyrja menn: Í hvora áttina vilja menn ganga?

Í Bandaríkjunum er nú talsverð umræða um hvort sveitarfélögin eigi að reyna að komast út úr þessu umhverfi með því að stofna eigin banka til að halda utan um eigin fjármálahreyfingar og koma í veg fyrir það brask sem innleitt hefur verið í fjármálaheiminum. En nákvæmlega út á það ganga þessir alþjóðlegu viðskiptasamningar, þ.e. að greiða götu fjármálaaflanna og þeirrar hugsunar sem þessi öfl hafa beitt sér fyrir. Það snýr sem sagt að umhverfinu, „macro-umhverfinu“. Ef við horfum inn í „micro-heiminn“, þau lög og þær reglur sem við ræðum núna hvort setja eigi fjármálafyrirtækjum, er að ýmsu að hyggja.

Í seinni tíð hefur sú hugsun rutt sér rúms að krefjast eigi aukinnar menntunar allra þeirra sem stýra fjármálastofnunum. Helst eiga viðkomandi menn að vera útfarnir í markaðsfræðum hvers kyns, helst með prófgráður upp á vasann og námskeið í því hvernig höndla eigi með peninga og helst græða á þeim. Við höfum vísað út fólki, t.d. úr stjórn Íbúðalánasjóðs af þeirri ástæðu að það hefur ekki tilskildar gráður. Það er orðið ólöglegt að hafa fólk sem ekki hefur slíkar gráður. Ekki er spurt um gráður í siðfræði eða hvort menn kunni boðorðin tíu. Spurt er hvort menn hafi gráður í markaðsfræðum. Það er krafan sem gerð hefur verið og við höfum vísað fjölda fólks út úr stjórnum þessara stofnana á þeim grundvelli, fólki sem búið hefur yfir góðri dómgreind. Það er nú bara veruleikinn. Nú er verið að herða á öllu því regluverki. Ég spyr stundum sjálfan mig: Getur það verið að við þurfum fólk af öðrum kaliber, með aðra hugsun, annað forrit en það sem við sækjumst eftir? Góða, heiðarlega reikningskennara (Gripið fram í.) sem kunna að reikna og búa yfir góðri dómgreind? Vegna þess að hinir með gráðurnar var mannskapurinn sem fór með okkur út í fenið og setti fjármálakerfið á hliðina. Síðan er gengið út frá því að það sé sú tegund sem muni að stýra fjármálastofnunum í komandi tíð vegna þess að frumvarpið — ég veit ekki hve margar lagagreinar ganga út á það að setja bönd á hinn hættulega Adam. Út á það gengur þetta frumvarp, hvernig koma á í veg fyrir að svindlararnir, gróðapungarnir og braskararnir fari með þessar stofnanir í þann farveg sem þeir gerðu hér áður. Út á það gengur það.

En getur það verið að við eigum að reyna að rífa okkur upp úr þeim farvegi? Þess vegna er ég talsmaður þess að við, almenningur, samfélagið, höldum eignarhaldi á að minnsta kosti einum ríkisbanka. En það er von að Viðskiptaráð vilji núna láta selja þann banka, ekki síst eftir að í ljós kom að hann skilaði 26 milljörðum í ríkissjóð á síðasta ári. Við fáum líka fréttir af því að bankarnir, viðskiptabankarnir þrír, skiluðu í hagnað af þjónustugjöldum 30 milljörðum kr. auk þessa hagnaðar. Það er ekki að undra að í þessum sal spyrji menn hvers vegna þessir fjármunir séu ekki látnir ganga til viðskiptavina bankanna í lægri vöxtum og lægri þjónustugjöldum. En það er nokkuð sem ég tel mikilvægt að við höldum til haga, að það er mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf og íslenskan almenning að halda eignarhaldi á að minnsta kosti einum ríkisbanka. Það var sú áhersla sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum þegar bankarnir voru markaðsvæddir á sínum tíma. Við sögðum: Ef svo fer að einhverjir bankar verði seldir má það aldrei gerast að þeir fari allir úr eignarhaldi hjá ríkinu.

Síðan er hitt sem einnig hefur verið hér til umræðu, þ.e. bónuskerfin sem mönnum verður tíðrætt um í þessu lagafrumvarpi. Eftir því sem ég skil á að vera heimild til að veita almennum starfsmönnum 100% bónusa, að hækka laun þeirra um helming en eitthvað minna til stjórnenda. Ég tek undir þær áherslur sem hér komu fram fyrr við umræðuna þar sem spurt var: Hvers vegna í ósköpunum þarf slíkt fyrirkomulag að inni í fjármálastofnunum sem við viljum ekki sjá á öðrum vinnustöðum? (Gripið fram í.) Og sérstaklega er það hættulegt í þessum stofnunum. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, sem þorir ekki að ræða um eignarhald á bönkum og hreytir ónotum í menn sem vilja efna til slíkrar umræðu, ætti að horfa til þessa.

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hversu mörg orð ég þarf að hafa til viðbótar um þetta frumvarp. Ég legg áherslu á að það er rangt að skoða þetta sem afmarkað mál. Við þurfum að horfa til fjármálakerfisins alls og ræða hvert við viljum stefna með þetta kerfi, hvort við ætlum að halda áfram út á þá braut sem menn eru að marka úti í hinum stóra heimi og við eigum hlutdeild að í gegnum TiSA-samninga, eins og verið er að gera í hinum svokölluðu TTIP-samningum yfir Atlantsálana. Viljum við halda áfram út á þá braut eða viljum við taka höndum saman með almenningi í Bandaríkjunum og víðar sem vilja endurmeta kerfið alveg frá rótum, hugsa þessi mál alveg upp á nýtt og horfa ekki til regluverksins í þeim skilningi sem hér er gert?

En það sem ég vildi sagt hafa og gleymdi þegar ég vísaði í hv. þm. Vilhjálm Bjarnason, varðar þá hugsun sem fólgin er í bónuskerfinu sem slíku, að festa það inn í regluverk bankanna og þankaganginn í allri markmiðssetningu, að því hærri verða laun þín sem stofnunin græðir meira. Er það gott? Er hægt að búa til bónusa sem virka á hinn veginn, að því hærri sem launin verða, því lægri verði þjónustugjöldin, vextirnir og minni hagnaður til eigenda bankanna? Það er eitthvað mikið öfugsnúið í allri þeirri hugsun. Víðast hvar í opinbera kerfinu hafa menn beitt sér gegn því að settir verði bónusar inn í starfskjör fólks. Það er jafnan talið af hinu illa. Við þekkjum það náttúrlega víða. Menn hafa reynt það uppi í háskóla, menn fá punkta fyrir ritgerðir og allir byrja að pumpa út ritgerðum og greinum óháð notagildi þeirra endilega. Svona geta öll kerfi snúist upp í andhverfu sína nema í bankakerfinu. Í fjármálakerfinu var skaðinn miklu alvarlegri og við eigum að læra af reynslunni hvað það snertir.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þessa frumvarps. Ég þekki það ekki í neinum smáatriðum. Ég sé bara megináherslurnar sem hér eru lagðar. Ég sé að hér er verið að opna á aukna bónusa. Ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra gráta yfir því að frumvarpsdrögin heimiluðu ekki hærri bónusa til stjórnenda og gaf því undir fótinn að það yrði lagað í þinglegri meðferð. Honum fannst afskaplega slæmt að hafa þetta ekki stærra og meira þarna. Menn gráta sumir að yfir því að landsbankastjórinn hafi lægri laun en bankastjórarnir í öðrum bönkum. Sjálfum finnst mér það vera heilbrigðisvottur.