144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni þegar hann talaði um kröfur sem gerðar eru til þeirra sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækja, að þeir þurfa að hafa háskólamenntun, það er sérstaklega tekið fram. Ég hef sjálf efasemdir um að setja slíkar kröfur og ég tek eftir því að til dæmis í tilskipuninni frá Evrópusambandinu eru engar kröfur um að þeir sem sitji í stjórn fyrirtækja skuli hafa háskólamenntun, það er heimatilbúið. En svona er nú sagt ákveðið um suma hluti.

Svo er annað í þessu frumvarpi sem er svolítið lausara í orðunum. Hér stendur til dæmis, með leyfi forseta:

„Stjórn fjármálafyrirtækis skal við störf sín verja hæfilegum tíma í að fjalla um helstu áhættuþætti í starfsemi fyrirtækisins.“ (Forseti hringir.)

Nú er hv. þingmaður háskólagenginn og gæti setið í stjórn fyrirtækisins. Hvernig ætlar hann að dæma (Forseti hringir.) hvað það þýðir að verja hæfilegum tíma í að fjalla um áhættuþætti fyrirtækisins?