144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:32]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum nokkuð sammála um flest í þessu. Ég held að ástæðan fyrir því hversu annt okkur er um það hverjir eiga bankana sé hið sérstaka leyfi sem þeir hafa til að fara í hlutverk Seðlabankans og búa til lögeyrinn. Hugsanlega væri lausnin á því sú að hætta að framselja einkafyrirtækjum leyfið til að búa til peninga, endurheimta það, færa til Seðlabankans. Við höfum væntanlega ekki hug á því að einkavæða Seðlabankann heldur ætlum við að eiga hann sem stofnun sem sér til þess að nægt framboð sé af þeim einingum sem við köllum peninga í landinu, til að gera það sem þarf að gera í hagkerfinu, skiptast á vörum, þjónustu og öðru. En að því loknu, eftir að búið væri að búa þannig um hnútana, skipti þá ekki minna máli hverjir ættu banka? Þá þyrfti ekki að bjarga þeim ef þeir féllu, það væri vandamál hluthafanna, meira og minna. Sjálfur gjaldmiðillinn hættir ekki að virka af því að hann er rekinn af Seðlabankanum, hvort sem hann er í formi seðla eða innstæðna eru það geymt í Seðlabankanum sem getur ekki farið á hausinn.