144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Kaupaukakerfi í bönkunum og næfurþunnt eigið fé er eitraður kokteill. Það er eiginlega það sem ég tel að sé niðurstaða þeirrar merku umræðu sem við höfum háð hér í dag. Haldnar hafa verið feikilega merkar ræður og umræðan er þinginu til hróss. Stjórnarandstaðan og stjórnarliðið hafa teflt fram sérfræðingum sínum á þessu sviði og ég verð að segja að það hefur verið mikið ánægjuefni og ákaflega fróðlegt að hlusta á menn eins og hv. þingmann og formann efnahags- og skattanefndar, Frosta Sigurjónsson, koma hingað og lýsa viðhorfum sínum, sömuleiðis hv. þm. Vilhjálm Bjarnason að ógleymdum fyrrverandi fjármálaráðherra og innanríkisráðherra, þeim Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni.

Öll þau sjónarhorn sem hafa birst okkur hafa þjónað því að lýsa upp umræðuna og ég held þegar við stöndum nú í lok dags og umræðunni hefur fleygt töluvert mikið fram að menn séu ekki mjög ósammála. Ég sagði að hinn eitraði kokteill samanstæði af tvennu: Annars vegar kaupaukakerfi í bönkunum, sérstaklega ef það fer úr hófi fram, og hins vegar næfurþunnu eigin fé. Nú er það þannig að þetta frumvarp tekur eða á að taka á báðum þessum þáttum og ég held að segja megi nokkuð skýrt að þau ákvæði sem varða eigið fé bankanna horfa mjög til bóta. Það er verið að setja skýrar reglur, að ég ekki segi kvaðir, um að við vissar aðstæður eigi Fjármálaeftirlitið að ganga úr skugga um að bankarnir auki við eigið fé sitt og eru raunar í frumvarpinu taldir upp fimm mismunandi eiginfjáraukar.

Ég þeirrar skoðunar að eitt af því sem hafi komið fram hér og sé sannmæli með bæði stjórnarandstöðu og stjórnarliðunum sé einmitt það að við eigum að nota þá sérstöku stöðu sem er uppi núna. Það má segja að bankakerfið sé í ákveðnu skjóli í dag og eigið fé bankanna er mjög mikið. Það er akkúrat við slíkar aðstæður sem ég tel að við eigum að nýta okkur þetta frumvarp, þegar það er orðið að lögum, til að tryggja að bankarnir í góðæri sínu, þar sem þeir hafa bæði hagnast mjög mikið og búa við sterkt eigið fé, taki skrefið lengra áfram og auki eigið fé sitt, þ.e. nýti sér það svigrúm sem þessar reglur gefa til að styrkja sig og ekki bara eigið fé sitt heldur líka til að gera sig hæfari gagnvart alþjóðlegum stöðlum og þar með að auka og styrkja lánshæfi sitt. Um leið og það verður gert er verið að styrkja orðstír og lánshæfi Íslands. Þetta þykir mér mikilvægt og ég tek eftir því að bæði hv. þingmenn stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar eru sammála um það.

Umbúnaður þess máls, þ.e. eiginfjáraukanna í frumvarpinu, finnst mér ekki vera nægilega skýr og það gladdi mig að hv. formaður efnahags- og skattanefndar sagði að rétt væri að nefndin skoðaði sérstaklega hvort ekki ætti að gera þetta að sérstakri kvöð gagnvart þremur stærstu fjármálastofnunum okkar sem nú eru starfandi, og ég er honum algerlega sammála um það. En í frumvarpinu sjálfu er það hins vegar þannig að Fjármálaeftirlitið á eiginlega að ýta því að bönkunum. Við vitum auðvitað að ef þær aðstæður skapast á markaði að háski steðjar að bönkunum eru þeir sístir í færum með að auka eigið fé sitt. Það er þess vegna á tímum eins og núna, þegar þeir eru í sterkri stöðu, sem það á beinlínis að fyrirskipa þeim það. Mörg okkar sem voru hér í þessum sölum í aðdraganda bankahrunsins, mánuðina þar á undan, meðan á því stóð og síðan á árum og missirum þar á eftir, komu skaðbrennd úr þeirri umræðu og þeirri atburðarás allri og menn vilja allir, tel ég, læra af reynslunni. Það sem skiptir mestu máli er að við lærum af reynslunni og breytum kerfi okkar út frá því sem atburðarásin sýndi að því var áfátt um. Það er mjög mikilvægt og þess vegna segi ég að það ríður á miklu að sá umbúnaður sem kemur fram í frumvarpi af því tagi sem hér er sé mjög vel hnýttur.

Þetta frumvarp er að sönnu lagatorf og það er erfitt að lesa sig í gegnum það. Það er hins vegar nauðsynlegt að þingmenn gefi því mikinn gaum og sérstaklega að sérfræðingar okkar sem sitja fyrir flokkanna hönd í efnahags- og skattanefnd fari nákvæmlega ofan í orðanna hljóðan. Við höfum á síðustu missirum séð mikil dómsmál ganga í gegnum íslenska réttarkerfið. Við í þessum sölum höfum reyndar tekið þátt í því að víkka út réttarkerfið, auka fjárveitingar til þess, bæði til rannsóknar, saksóknar og til dómskerfisins sjálfs. Eitt af því sem sendur upp úr er að það hafa verið mikil skæklatog og hártoganir um það hvort menn hafi hugsanlega framið afbrot, vegna þess að lögin hafa verið svo óljós. Því segi ég: Af því þurfum við að læra og þurfum að byggja þetta frumvarp og þau mikilvægu lög sem af því munu spretta með sem nákvæmustum hætti. Ég verð þó að segja það alveg eins og er að þegar maður fer nákvæmlega í gegnum frumvarpið, eins og ég hef reynt að gera, sér maður góðan vilja og ljós markmið frumvarpshöfunda spretta fram úr hverri grein. Ég dreg ekki í efa að af þeirra hálfu er ekkert sem fyrir vakir annað en að gera sem best úr garði lög sem þjóna hagsmunum Íslendinga sem best og draga sem mest úr líkunum á því að það skapist kerfisáhætta, sem hugsanlega geti farið yfir stjórnarleg bönd og það leiði til hruns á nýjan leik

Ég verð samt sem áður að segja að þegar ég fer yfir frumvarpið blöskrar mér á köflum. Í fyrsta lagi hvað hlutirnir eru oft og tíðum óljósir, í öðru lagi hvað þeir eru lítt skýrðir og í þriðja lagi sé ég ekki betur en að í sumum tilvikum sé beinlínis verið að búa til freistnivanda. Ég hef setið hér í 25 ár og hef að sjálfsögðu út úr þeirri reynslu dálaglegt pungapróf í hinum ekonómísku fræðum, en ég lít ekki á mig sem neinn sérfræðing. Í öllu falli hef ég setið og tekið þátt í að stýra þessu landi í gegnum hrun og setið í þessum sölum, en ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég fer í gegnum þetta frumvarp er margt sem ég skil ekki. Þar eru orð sem ég hef aldrei séð áður og sem eru hvergi skýrð í textanum. Eitt af því sem mér finnst áfátt, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason fór rækilega yfir í góðri ræðu sinni í dag, er sú staðreynd að alls konar orð eins og „sveiflujöfnunarauki“, sem er að finna í 30. gr. d, er ekki að finna í orðskýringunum. Ég gæti tekið mörg önnur dæmi en ætla ekki að eyða tímanum í það. En það eru fimm mismunandi eiginfjáraukar sem eru lítt skýrðir, að vísu slengt saman í eina beðju á einum stað en fyrir þá sem eru ekki með eina eða tvær háskólagráður er erfitt að skilja þetta. Það á ekki að leggja frumvarp af því tagi fyrir þingið, sem er þannig að menn sem eru búnir að standa vaktina lengi eigi erfitt með að skilja það.

Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir atriði þar sem ég tel beinlínis að menn hafi sett niður ákvæði sem vinna gegn markmiði laganna. Markmið laganna er að útrýma freistnivanda, er að útrýma þeim áhættukúltúr sem var að finna innan kerfisins og draga úr líkunum á háskalegri háttsemi. Í 29. gr., þar sem er verið að breyta IX. kafla þeirra laga sem fyrir eru og er meðhöndlun áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis, er t.d. fjallað um áhættunefnd. Áhættunefnd er að sjálfsögðu lykilnefnd og það segir þar í 1. málslið að hvert einasta fjármálafyrirtæki skuli starfrækja áhættunefnd. En það vill svo til að í 4. mgr. 6. gr. kemur skýrt fram að sá möguleiki er eigi að síður fyrir hendi að slíkar áhættunefndir séu ekki settar upp. Þar er talað um yfirmann áhættustýringar í þeim áhættufyrirtækjum þar sem áhættunefndin er ekki en þó segir eigi að síður fortakslaust í 29. gr. að svo skuli vera í hverju einasta fjármálafyrirtæki.

Varðandi ákvæðið um áhættunefndina segir að hún skuli að lágmarki skipuð þremur mönnum. Tveir þeirra mega vera stjórnendur fyrirtækisins. Það sem mér finnst merkilegt til dæmis í ljósi reynslunnar er að ekki skuli hugsanlega vera gert ráð fyrir því, jafnvel fortakslaust, að hjá stórum fjármálafyrirtækjum skuli a.m.k. einn maður í áhættunefndinni koma utan fyrirtækisins. Ég held að það væri ákaflega þarft. En skilgreiningin á starfssviði áhættunefndarinnar er merkileg. Hún á meðal annars að kanna hvort hvatar sem geta falist í því sem ég kalla bónusa, en þetta frumvarp í einhverjum sérkennilegum yfirvarps- og feluleik kallar breytileg starfskjör, geti leitt til þess að fyrirtæki taki óhóflega áhættu. Herra forseti. Það er þannig að í áhættunefndinni getur þó meiri hluti verið samansettur af stjórnarmönnum úr fyrirtækinu en það eru akkúrat þeir stjórnarmenn sem ákveða hvatana og í sumum tilvikum jafnvel, kannski oft, ákveða líka hvatana til sjálfs sín. Þá segi ég: Hérna er verið að búa til freistnivanda gagnvart stjórnarmönnum sem sitja í áhættunefndinni og ég fæ ekki betur séð en hann sé allmikill. Það er ekki skýrt ítarlega hvernig stendur á þessum málatilbúnaði í greinargerðinni en ráða má af umhverfi orðanna og ef maður skyggnist á bak við þau að það sé gert vegna þess að líklegt sé að stjórnarmennirnir séu það vel að sér um hin breytilegu starfskjör að þeir séu best til þess fallnir. Það breytir engu um það að þarna er verið að skapa freistnivanda. Þetta tek ég sem dæmi um innra ósamræmi millum ákvæða í frumvarpinu og ég hef tekið það sem dæmi af því að þetta er mikilvægur þáttur sem á að draga úr áhættusækni kerfisins sem beinlínis vinnur gegn markmiði laga.

Ég lagði á það áherslu í upphafi þessa kafla ræðu minnar að orðin séu skýr og vísaði til nýliðinna dómsmála. Ef við förum í 10. gr,. sem er ákaflega mikilvæg, fjallar hún um það hvernig á að búa um fyrirgreiðslu eða lán til stjórnarmanna, til eigenda virkra eignarhluta eða starfsmanna. Þar kemur fram að ákveðin takmörk eru á því og það má alls ekki lána þeim nema gegn hverju, herra forseti? Traustum tryggingum. Það kemur hvergi fram hvað traustar tryggingar eru. Hvað höfum við séð leiða af óskýru matskenndu orðalagi sem þessu?

Í sömu grein, svo ég haldi einungis áfram, er talað um að þeir aðilar sem fjallað er um, stjórnarmenn, starfsmenn, eigendur virkra eignarhluta, fyrirgreiðsla til þeirra eigi að lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum. Svo er hnýtt við eftirfarandi: … eftir því sem kostur er. Hver á að meta það? Það kemur hvergi fram að Fjármálaeftirlitið eigi að meta það. Það eru engar sérstakar reglur um það. Þetta finnst mér ákaflega óskýrt.

Það er talað um í þeirri sömu grein að lán eða fyrirgreiðsla til viðkomandi megi ekki fara yfir tiltekna upphæð. Það er fínt, 200 milljónir. Það er sennilega á mælikvarða nútímans ekkert svakalega há upphæð varðandi einstaklinga sem eru ákaflega vel fjáðir. Svo kemur næsta setning og hún hljóðar svona: Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu fyrir því að fara yfir fjárhag samkvæmt 3. málslið. Það er sem sagt bannað, settar eru reglur og síðan er undanþáguheimildin sett strax á eftir, alveg eins og í III. kafla þar sem Fjármálaeftirlitinu eru veittar heimildir til að afturkalla starfsleyfi ef verulegur vafi leikur á því að fjármálafyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánveitingum og innlánseigendum sínum, en svo kemur í næstu setningu að Fjármálaeftirlitið verði að hafa mjög ríkar áherslur til að beita heimildinni og þá einungis í neyðartilfellum.

Herra forseti. Nú er tíma mínum lokið en ég gæti tekið sex önnur slík dæmi og þó mundi ég segja að ég, miðað við þá snillinga sem hér hafa rætt í dag, hafi ekki farið nema á hundavaði yfir þetta frumvarp og er þar að auki ekki með nema í hæsta lagi tæpt pungapróf í þessum fræðum. Ég segi það að þetta er jákvætt frumvarp, það stefnir fram á við en það þarf að hnýta það (Forseti hringir.) miklu traustari böndum.