144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrir liggur að ferðaþjónustan er sú grein sem er í mestum vexti á Íslandi. Margir hafa haldið því fram, og með réttu, að við séum í raun á ögurstundu í þeim efnum. Fjölgun ferðamanna er gríðarleg milli ára og fjöldi ferðamanna á venjulegum vetrarmánuði núna er eins og í sumarmánuði fyrir örfáum árum. Stefnumörkun í greininni liggur ekki fyrir og framtíðarsýnin er ekki fyrir hendi. Við erum hér í þinginu með fjölmörg mál sem varða náttúruvernd og ferðaþjónustu og þann mikilvæga segul sem íslensk náttúra er. Málin eru til umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd, hjá umhverfis- og samgöngunefnd, hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Bútasaumur er nálgunin og hættan er viðvarandi, að okkur reki af leið. Frumvarp um náttúrupassa er til umfjöllunar, frumvarp um innviði ferðaþjónustunnar, náttúruverndarlög, kerfisáætlun Landsnets, rammaáætlun, landsskipulagsáætlun er líka í pípunum en allir þessir þættir varða með einum eða öðrum hætti umgjörð náttúruverndar og hafa möguleg áhrif á ásýnd landsins.

Ögurstundin er núna og þörfin fyrir heildarsýn er núna. Við þurfum virkilega á samstillingu og einurð að halda. En það sem við búum við hér er skortur á yfirsýn og skortur á verkstjórn. Það er óþægilegt og það er vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina og fyrir stjórnarmeirihlutann, óháð pólitískum eða efnislegum markmiðum, en það sem verra er er að hér eru svo gríðarlega mikil verðmæti í húfi, landið, náttúran og öflug atvinnugrein, ásýnd landsins og ímynd atvinnugreinarinnar, allt er þetta í húfi en enginn hefur yfirsýn. Þetta mál er í raun og veru táknrænt fyrir ráðaleysi ríkisstjórnarinnar og skort á verkstjórn og er prófsteinn á getu eða getuleysi og niðurstaðan liggur fyrir. Stjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ræður ekki við þetta verkefni og það er stóralvarlegt mál. Það er bráðnauðsynlegt að koma á langtímaáætlun í þessum málaflokki en ekki síður að taka til við að bregðast við aðsteðjandi bráðavanda. Til þess þarf samstillingu og samstöðu. Er hægt að koma (Forseti hringir.) slíku á?