144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er að verða ár liðið síðan umræða hófst um möguleg kaup á gögnum úr skattaskjólum um meint skattsvik. Síðan þá hefur fjármálaráðherra hrakist til þess í opinberri umræðu að samþykkja, a.m.k. að hluta, einhverjar aðgerðir í þessa veru en enn hefur ekkert þingmál komið frá ráðherranum til að gera mönnum það kleift og nú er stutt eftir af vorþingi.

Hér skortir í fyrsta lagi skýra lagaheimild til þess að kaupa og nota þessi gögn fyrir íslenskum dómstólum, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson hefur bent á, og furðulegt að hæstv. ráðherra sé ekki búinn að sækja þá lagaheimild til þingsins þegar það er yfirlýst af hálfu fjölmargra þingmanna úr stjórnarandstöðunni að málinu verði sérstaklega greidd leið þegar hann loksins kemur með það.

Hér vantar í öðru lagi fjárveitingu til kaupanna frá fjárveitingavaldinu á þinginu og hana hefur fjármálaráðherrann enn ekki sótt.

Í þriðja lagi vantar það, sem ég hef enn ekki heyrt ráðherrann kveða upp úr um, að skattrannsóknarstjóri sem sætir nú niðurskurði á tímabundnum verkefnum sem hann hafði fjárveitingar til fái fjárveitingar til að hafa það starfsfólk sem til þarf til að vinna úr þessum gögnum. Hér bólar ekkert á þingmáli frá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni um að sækja fjárveitingar til þess að skattrannsóknarstjóri hafi mannafla til að vinna úr þeim gögnum sem kaupa á.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég kalla eftir þessu úr þessum ræðustól. Nú hlýtur maður að verða að spyrja: Hvers vegna dregur hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson lappirnar í þessu máli sem varðar skattaskjólin?