144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarið hafa vakið athygli ummæli fyrrverandi utanríkisráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar um stöðu Evrópusambandsins. Það er áhugavert að líta á heimasíðu fyrrverandi ráðherrans og lesa þar svör sem hann er að senda meistaranema í Evrópu. Hann segir þar meðal annars að Ísland sé betur sett utan sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB, að við eigum ekkert erindi þangað inn. Um gjaldmiðilsmálin segir hann meðal annars að gjaldmiðilssamstarfið sé í eðli sínu og uppbyggingu meingallað, það geri kröfu um ákveðin grundvallaratriði sem ekki hafi gengið eftir og kerfið hafi reynst misheppnað. Efnahagskerfið reynist veikt í grundvallaratriðum. Um árabil hafi menn orðið vitni að seinum og of litlum viðbrögðum forustumanna ESB á þessum vettvangi, forusta ESB hafi krafist þess að skattgreiðendur borgi brúsann fyrir fjármagnseigendur. Ef Ísland væri aðili að myntsamstarfi Evrópu værum við í sömu stöðu og Grikkir.

Hann heldur því fram, fyrrverandi ráðherrann, að við ættum að horfa til annars gjaldmiðilssamstarfs en við Evrópusambandið. Hann talar um að Þýskaland hafi þröngvað upp á jaðarríki Evrópusambandsins niðurskurði í félagslegri þjónustu, hækkun skatta án árangurs.

Og hann heldur áfram. Það er spurt hvort Ísland sé betur sett innan Evrópusambandsins eða slíks alþjóðasambands ríkja. Í grundvallaratriðum segist Jón Baldvin Hannibalsson vera sammála því en að við núverandi aðstæður verði ESB að gyrða sig í brók áður en það komi til greina að Ísland eigi nokkurt erindi þangað inn. Gjaldmiðilssamstarfið sé í hreinni óreiðu, pólitísk forusta sé í molum, skipulag utanríkismála óhagkvæmt og óskilvirkt.

Þetta eru dómar fyrrverandi utanríkisráðherra okkar, eins úr forustuliði Samfylkingarinnar. Hann segir jafnframt á Eyjunni að íslenskir jafnaðarmenn hafi týnt erindisbréfi sínu. (Forseti hringir.) Ég óska eftir viðbrögðum formanns Samfylkingarinnar við þessu. Er hann sammála þessum fyrrverandi utanríkisráðherra okkar, Jóni Baldvini Hannibalssyni?