144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að svara hv. síðasta ræðumann, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, með því að benda henni á ræðu mína sem ég flutti í gær varðandi forvirkar rannsóknarheimildir og hvernig forgangsraða beri málefnum lögreglunnar í þeim efnum.

Í öðru lagi langar mig að vísa í mjög góða ræðu hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur sem hún flutti hér í gær um sendingu sönnunargagna með tölvupósti hjá lögreglunni og sérstaklega í samhengi við dulkóðun á þeim, eða öllu heldur skort þar á. Þann skort má lesa úr svari sem kom frá hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn sem sá sem hér stendur lagði fram á sínum tíma um sendingu sönnunargagna með tölvupósti.

Í þriðja lagi langar mig að halda aðeins áfram með það umræðuefni sem hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir talaði um í gær, um tölvuöryggi og netöryggi, netöryggi hjá hinu opinbera, sérstaklega hjá lögreglunni. Mikið er talað um öryggismál þessa dagana og forvirkar rannsóknarheimildir af ýmsum ástæðum, að auka heimildir af ýmsum toga og endurskoða þau mál til að auka öryggi. Gott og vel. Ég hef ekki nægan tíma til að fara aftur og meira út í það mál, frekar vil ég benda á að það er blindur blettur í öryggismálum á Íslandi, sá blindi blettur er netöryggi.

Stjórnsýslan geymir allar viðkvæmustu upplýsingar sem fyrirfinnast um borgara þessa lands, kannski fyrir utan ástarlíf þeirra. Ríkið heldur utan um allt er varðar heilbrigðismál og margt fleira. Það er því mjög mikilvægt að netöryggi hjá hinu opinbera sé í lagi til þess að halda almennilega utan um það eða til þess að vernda almennilega réttindi borgaranna til þess að fá að hafa þessi gögn í friði.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það er almenn tilhneiging hjá fólki til að halda að netöryggismál séu í lagi í heiminum, að tölvutæknin sé komin það langt. Það er hún ekki. Árið 2014 var eitt hryllilegasta ár í tölvuöryggismálum frá upphafi. Þessi mál eru að versna hér á landi sem og úti um allan heim. Það er mikilvægt að við tökum á þeim, ekki endilega með því að auka heimildir — og reyndar alls ekki með því að auka heimildir, heldur með því að minnka andvaraleysið (Forseti hringir.) og auka áherslu á að netöryggismál séu í lagi. (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingi verði að jafnaði opnir.