144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Allt frá því að ég steig fyrst inn á Alþingi okkar Íslendinga sem þingmaður hef ég einsett mér að koma fram af auðmýkt og virðingu við alla þá sem þar starfa, alþingismenn jafnt sem starfsfólk. Það geri ég einfaldlega vegna þess að ég tel eftir að hafa fylgst með stjórnmálum og tekið þátt í þeim að það sé besta leiðin til þess að ná árangri í því að auka farsæld þjóðarinnar. Það er hlutverk okkar sem komum að stjórn landsins að skoða allar leiðir sem hugsanlega geta aukið velsæld og framfarir í samfélagi okkar. Til þess að svo megi verða þarf að eiga sér stað efnisleg og upplýst samræða úti í samfélaginu og síðast en ekki síst á Alþingi þar sem hinar ólíku skoðanir fá að koma fram. Því miður fara umræður um hin stóru mál oftar en ekki út í hið eilífa karp um smáatriði og önnur brýn mál sitja á hakanum á meðan.

Í 8. bindi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um lýðræðislega umræðu, segir m.a., með leyfi forseta:

„„Umræðuhlutverki þingsins eru gerð góð skil af íhaldsmanninum Edmund Burke þegar hann lýsir þinginu sem „umræðusamkomu [...] einnar þjóðar, með sameiginlega hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Þar ættu staðbundnar óskir eða fordómar ekki að ráða ferðinni heldur hagur heildarinnar, sem leiða má af yfirvegun heildarinnar.“ Hugtakið samræðustjórnmál á rætur sínar í þessari hugsjón um þingið sem vettvang rökræðu sem tekur öðru fremur mið af almannahagsmunum. Markmið rökræðu er að lýsa upp málefni; því verður hún að byggjast á upplýsingum um staðreyndir mála og sá sem stundar rökræðu af heilindum leitast við að hafa það sem sannara reynist. Gildi stjórnmálarökræðunnar er meðal annars fólgið í því að láta andstæð sjónarmið takast á og það er hlutverk stjórnarandstöðu að láta reyna á málflutning stjórnarliða til að skerpa röksemdir.“

Hæstv. forseti. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að ég vil að mál fari úr nefndum til umræðu og afgreiðslu í þingsal þrátt fyrir að ég sé efnislega ósammála þeim.