144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

ósk um umræðu um LÍN.

[15:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka vel í að taka þetta mál upp eða tryggja að ráðherra geti verið hér til svara varðandi lánasjóðinn. Sjálfur hef ég óskað eftir því að málið verði tekið upp í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Við höfum rætt þetta mál áður en það sem er svo sérstakt við það er að við settum lög um ábyrgðarmenn fyrir til þess að gera skömmu. Við settum klárt regluverk utan um hvernig eigi að hafa hlutina en hér er verið að hreinsa upp löngu síðar og senda bréf til fólks sem á enga möguleika á að hafa vitað nokkurn skapaðan hlut um þessar ábyrgðir og það er gengið eftir því að jafnvel dánarbúin greiði upp gjaldfallin lán.

Okkur er annt um lánasjóðinn en ég held að við verðum að reyna að tryggja að lánasjóðurinn fari eftir nýju reglunum og felli þá niður þessar ábyrgðir. Það er okkar í þinginu að taka á þessu máli. Þeir sem tóku lánin eiga að bera ábyrgðina en ekki afkomendur löngu seinna.