144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[15:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Talið er að um 10–15% af föngum um heim allan séu með alvarlegar geðraskanir. Þessar tölur eru þó nokkuð mismunandi á milli landa og sýnt hefur verið fram á varðandi þessa þætti í ýmsum rannsóknum að þegar innlögnum á geðdeild fjölgar þá fækkar þeim sem fara í fangelsi í þeim tilvikum þar sem erfiðleikana má rekja til geðraskana. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að þegar úrræði í heilbrigðiskerfinu hafa ekki verið til staðar fyrir þá er glíma við geðraskanir þá fjölgar föngum.

Hér á landi hefur verið talsverð gagnrýni á það úrræðaleysi sem hefur átt sér stað vegna brotamanna sem eru sakhæfir en með alvarlegar geðraskanir. Bent hefur verið á að úrræði fyrir þessa einstaklinga vanti sárlega. Þetta úrræðaleysi er ekki nýtt og hefur ástandið varað í talsverðan tíma. Það er ekki erfitt að finna fréttir sem ná langt aftur í tímann um þessi mál. Það sýnir okkur líka hversu mikilvægt það er að reyna að finna lausn á þeim. Samkvæmt ræðu hæstv. innanríkisráðherra er sannarlega verið að reyna að finna lausn í þeirri vinnu sem fer fram í innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Í opinberri gagnrýni hefur komið fram að ýmsir telja að þessir brotamenn eigi ekki heima á geðdeildum spítalanna. Auk þess hefur komið fram í þessari gagnrýni að þeir eigi ekki að sitja í fangelsi ef engin úrræði eru þar til staðar sem henta þeim veikinda þeirra vegna. Þarna virðist einhver togstreita hafa myndast.

Hæstv. innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, gerði góða grein fyrir stöðunni í ræðu sinni. Því ber að fagna að skilningur sé á því að bæta þurfi þjónustuna og tryggja þurfi sérhæfð úrræði fyrir þennan hóp fanga, þjónustu sem er ekki veitt í fangelsum landsins í dag.