144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[15:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Við í allsherjarnefnd höfum talsvert fjallað um málefni fanga og þó aðallega hvað varðar menntunarmálin vegna þess að málefni fanga er á starfssviði okkar. Við gerðum okkur ferð á síðasta þingári á Litla-Hraun og kynntum okkur starfsemina þar og skoðuðum hvernig aðbúnaðurinn er. Það er auðvitað mjög gagnlegt fyrir okkur sem störfum á þinginu að fara í slíkar ferðir til að sjá með hvaða hætti þjónustan er veitt.

Það er alveg ljóst að hvað fanga varðar sem eiga við geðræn vandamál að stríða er verk að vinna. Við þurfum að gera bragarbót á því með hvaða hætti við sinnum þjónustunni og það var gott að heyra vilja ráðherrans í þessu efni. En það er alveg ljóst að það kallar á samstarf fangelsismálayfirvalda og heilbrigðisyfirvalda vegna þess að að sjálfsögðu heyra þessi mál undir báða þessa málaflokka. Það er oft þannig að þegar um er að ræða mál og efni sem heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti þá verða þau oft þyngri í vöfum. Ég vona svo sannarlega að svo verði ekki hér, ég vona að samstarfið muni ganga eins smurt og hægt er vegna þess að það er alveg ljóst að við þurfum að bregðast við og helst fyrr en seinna.

Þá verður athyglisvert að fylgjast með því með hvaða hætti þjónustan verður byggð upp í hinu nýja fangelsi en þó er alltaf þörf á miklu samstarfi vegna þess að þetta kallar á sérþekkingu og sérlært fagfólk úr heilbrigðisgeiranum til þess að vinna að þessum málefnum í samstarfi við fangelsisyfirvöld.