144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[16:06]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur farið fram og vil byrja á því að taka undir orð hv. þingmanna Unnar Brár Konráðsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur, þetta snýst um samstarf og teymisvinnu til að leysa úr þessum málum. Það þarf samstarf milli ráðuneyta og stofnana og það þarf sveigjanleika, það er engin ein lausn. Það getur þurft að finna lausn í hverju og einu tilfelli sem við á og það þarf að vera teymi sem vinnur að þessum málum.

Mig langar líka að huga að þeim föngum sem ekki búa við alvarlegasta vandann, þeim sem þurfa einfaldlega minni þjónustu frá degi til dags, því að eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á störfum þingsins þann 18. febrúar, er betrun eitt af mikilvægustu markmiðum fangelsisvistar. Fangar þurfa ýmiss konar aðstoð á leiðinni til betrunar, þeir þurfa að fá tækifæri til að byggja sig upp með námi eða vinnu, en oftar en ekki þarf að byrja á geðheilbrigðisþjónustunni því að hún er grundvöllur fyrir því að fangi komist í þá stöðu að vilja eða geta tekið þátt í betrunarúrræðum. Það eitt að glíma við geðrænan vanda, ná tökum á því að lifa með geðrænum vanda getur verið mikil betrun í sjálfu sér, þannig að við megum ekki gleyma því að sinna minni málunum vegna þess að við erum svo upptekin af stóru verkefnunum.