144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

málefni geðsjúkra fanga.

[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir það að taka fyrir einn punkt sem mig langaði að nefna, en hann er mjög mikilvægur.

Við verðum að átta okkur á því að fangar eru svolítið sérstakur hópur. Margt sem er að í samfélaginu hrjáir þennan hóp meira en almenning, hvort sem það eru geðraskanir eða ólæsi, ekki endilega kannski geðraskanir heldur hlutir eins og ofvirkni, saga um ofbeldi, fíkn og annað slíkt. Hlutfall allra svona hluta er miklu hærra í fangelsum.

Eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á megum við ekki einblína alfarið á þau tilfelli sem komast í fréttirnar, sem eru mjög, mjög erfið tilfelli þar sem miklar geðraskanir eru til staðar, heldur verðum við líka að muna eftir þeim föngum sem þurfa einfaldlega sálfræðiaðstoð, ekki endilega geðlækni, en þurfa kannski lyf við hlutum eins og ofvirkni, þurfa sálfræðing. Þá eru tvö vandamál í fangelsiskerfinu sem ég vil nefna, en samkvæmt mínum heimildum fá fangar ekki lyf við t.d. ofvirkni, kannski af þeirri augljósu ástæðu að ofvirknilyf eru jafnan vanabindandi og almennt misnotuð í samfélaginu og þar af leiðandi af mörgum sem lenda í fangelsi. Síðan er að sálfræðiaðstoð eða sálfræðingar sem þjónusta fangelsin koma frá Fangelsismálastofnun.

Það er lykilatriði í öllum geðlækningum og sálfræðiaðstoð að það ríki traust milli þess sem nýtur þjónustunnar og þess sem veitir hana. Það er ekki að mínu mati mögulegt að skapa þetta traust milli fanga og Fangelsistofnunar. Sálfræðiþjónusta og geðheilbrigðisþjónusta þarf að að vera sjálfstæð frá Fangelsismálastofnun ef vel á að fara. Þetta er ekki bara spurning um að búa til teymi og veita fjármagn, þó að það sé mjög mikilvægt hvort tveggja, grundvallaratriði, þá skiptir líka máli hvernig við högum þessu (Forseti hringir.) út frá sjónarmiði þess sem á við geðræn vandamál að stríða, óháð því hvort viðkomandi er fangi eða ekki.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.