144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel þetta frumvarp auðvitað skref í rétta átt. Það er komið inn á ýmsa þætti þótt menn stígi samt í öðru orðinu aftur á bak líka og tali um að hafa uppi ýmsar varfærniskröfur og annað varðandi eftirlit með bönkunum og starfsemi þeirra. Ég held að það sé alveg nægt verk að vinna hjá efnahags- og viðskiptanefnd við að rýna þetta frumvarp í gegn og koma með ábendingar sem megi bæta málið. Eins og ég skil það eru strax komnar efasemdir hjá þeim sem sömdu frumvarpið, þeir telji að marga hnúta megi hnýta miklu betur í þessum málum. Varðandi tryggingarsjóðinn held ég að innlán og innstæður þurfi að tryggja miklu betur og sýna fram á að það gerist ekki aftur sem gerðist fyrir hrun.

Varðandi kaupauka og bónusa held ég að íslenskt þjóðfélag sé svo brennt á þessu að það sætti sig ekki við það. Það á eftir að koma mikil hrina óánægju og óvildar í garð bankanna hjá almenningi ef þetta á að ganga svona í gegn og menn horfi til þess hvaða bankar sýni samfélagslega ábyrgð, ætli að deila kjörum með þjóðinni og þeim mikla hagnaði sem bankarnir hafa tekið inn. Hagnaðurinn er góður ef hann nýtist öllu samfélaginu en ekki bara fáum eins og hættan er. Þá nýtist gróðinn í vaxtakjörum, þjónustugjöldum og öðru þvílíku, (Forseti hringir.) að lækka gjöldin sem snúa að hinum almenna viðskiptamanni.