144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því sem hv. þingmaður nefndi síðar um samkeppnisstöðu íslenskra bankastarfsmanna og yfirmanna við erlenda bankastarfsmenn, ef þeir nytu ekki sömu kjara og bjóðast erlendis. Mér finnst ansi langt seilst ef menn ætla að miða við það. Ég segi bara farvel Frans. Það er kannski ábyrgðarlaust, en ég held að það sé saklausara en margt annað sem ætti að krefjast meiri ábyrgðar. Ef einhverjir bankamenn hérna telja hag sínum betur borgið einhvers staðar erlendis með feitari kaupauka held ég að það sé nóg til af hæfu starfsfólki sem gæti sinnt hlutverki þeirra og væri ekki alveg með dollaramerki í augunum. Það er mín skoðun.

Mér finnst ekki eðlilegt að eftirlitsaðilar, eins og regluverðir, innra eftirlit og aðrir þeir starfsmenn sem falla undir það, þeir sem gegna þessu veigamikla hlutverki, eigi að fara að vinna eftir kaupaukakerfi eða bónusum. Það er oft talað um eldveggi þarna á milli. Það eiga ekki að vera neinar gulrætur í því sambandi sem gætu leitt til einhverrar freistni í þeim málum, þ.e. að slaka á í eftirliti. Það var sagt fyrir hrun að það væri meiri starfsemi hjá skemmtinefndunum á vegum bankanna en hjá regluvörslunni, það var meira lagt í að hafa öflugar skemmtinefndir en að efla regluvörsluna sem hefði þurft af hálfu bankanna að leggja miklu meiri þunga í og fjármuni.