144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég flutti hér síðustu ræðuna sem haldin var í þessari umræðu í gær súmmeraði ég upp það sem mér fannst vera sammæli meðal þingmanna sem höfðu talað þann dag. Inntak ræðu minnar var að bónuskerfið sem hér er verið með vissum hætti að innleiða aftur og þunnt eigið fé bankanna væri eitraður kokteill. Við sáum hvernig það dró eldsmat á bálið sem brann í hruninu fyrir örfáum árum.

Nú vil ég segja það hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til hróss að hann er samkvæmt þessu frumvarpi að reyna að leggja fjötur á hvort tveggja. Það er alveg klárt að sá partur frumvarpsins er lýtur að eigin fé og eiginfjáraukum, raunar fimm gerðum þeirra, horfir til heilla. Ég verð hins vegar að segja að viðleitni hans til þess að stemma stigu við innleiðingu bónuskerfisins á nýjan leik missir gersamlega marks. Það hefur komið fram í þessari umræðu að þar eru ákveðnar hættur í gangi. Hér var vakin sérstök athygli á því af hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, sem flutti hér í gær einhverja þá bestu ræðu sem ég hef heyrt hann flytja af skyggnu mannviti um þetta mál, að þegar frumvarpið var samið var farið í að leita samráðs hjá þeim sem kynnu að hafa hagsmuni undir þessu frumvarpi, eins og lög gera ráð fyrir. Það var náttúrlega talað við Samtök fjármálafyrirtækja sem vildu engar hömlur á bónus og meira að segja leyfa hluthafafundum að auka bónus upp í 200%. Hann benti á þetta. Það er því alveg ljóst að þetta frumvarp er ekki í þágu neytenda.

Ég spurði hæstv. ráðherra hér í gær hvort það væri með nokkru móti hægt að verja það að þeir einstaklingar sem sjá um innra eftirlit fái bónusauka. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hún hægt að ljúka umræðu um þetta merka frumvarp án þess að hæstv. ráðherra svari (Forseti hringir.) lykilspurningum af þessum toga?