144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þurfi að svara þessari spurningu. Æðimargt á eftir að koma fram í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli sem kallar á að ráðuneytið endurskoði þetta frumvarp. Það að eftirlitsaðilar eins og regluverðir séu komnir í þann hóp starfsmanna sem hafi möguleika á að fá kaupauka og bónus finnst mér algjörlega á skjön við alla heilbrigða skynsemi. Það væri eins og að ökumenn í umferðinni gætu með einhverjum hætti aflað þeim sem eru í vegaeftirliti bónusa til að auka kaupið hjá þeim og þeir ættu síðan að hafa eftirlit með umferð og þungaflutningum á vegum og öðru slíku sem er nú orðið mjög strangt. Auðvitað eiga allir eftirlitsaðilar að vera sjálfstæðir í umfjöllun sinni. Það er mjög ábyrgðarmikið starf að gegna því hlutverki að vera regluvörður. Það á ekki að leiða þann hóp starfsmanna í þá freistni. Það eru að minnsta kosti líkur á að menn leiðist í þá freistni að slaka eitthvað á eftirlitinu eins og vissulega var gert fyrir hrun.

Ég held að það sé gott að bankarnir séu vel fjármagnaðir. Þessar kröfur ganga út á að það þurfi allt að 20% eigið fé í þessum stóru bönkum sem hafa kerfislega (Forseti hringir.) áhættu innbyggða í sínu kerfi.