144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp verðlaun Norðurlandaráðs sem viðkomandi bankar fengu. Ég fékk að njóta þess að koma að þeirri afhendingu. Það voru ákaflega athyglisverð fyrirtæki með ný gildi í fjármálaþjónustu og á fjármálamarkaði. Þetta voru ekki burðarviðskiptabankar í sínum löndum, heldur nýir sprotar á þessum markaði. Ég held að þeir séu mjög lofandi. Það er algjörlega ótvírætt að sjálfbærni er stærsta og mikilvægasta pólitíska verkefnið, ekki bara á Norðurlöndum og ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum í dag, og hún þarf að ryðja sér til rúms í fjármálaþjónustu eins og allri annarri mannlegri starfsemi. Því miður erum við ekki á nægilega góðri braut í umhverfismálum með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir heiminn, eins og formaður loftslagsnefndarinnar hefur ítrekað (Forseti hringir.) á allra síðustu dögum.