144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sótti samjöfnuð í svipaða hluti og hv. þingmaður í gær þegar ég rifjaði upp tíð mína í Hraðfrystihúsi Dýrfirðinga á Þingeyri sællar minningar þar sem allt gekk út á að vera nógu fljótur með þorskana upp á hausarann svo vinnslulínan gengi sem greiðast og best. Bónusinn var eftir því greiddur og það var þá til þess að hvetja til þess að sem flestir þorskar kæmust í gegnum línuna á hverjum tíma. Það er það sem skiptir máli, að það sé verið að hvetja til réttu hlutanna.

Ég held að ég sé sammála þingmanninum um að það þurfi alls ekki endilega að eiga við í öllum störfum í bankakerfinu. Ég held samt að það geti átt við í sumum en þá þurfi það að vera mjög skýrt afmarkað og augljóst um hvað sé að ræða. Það getur verið jákvætt að starfsmaður auki þau viðskipti sem bankinn á í. Undir fjármálafyrirtækin fellur væntanlega vátryggingastarfsemi, svo dæmi sé tekið, og þar er löng hefð fyrir því að starfsmönnum sé greitt eftir því hversu marga þeir fá til að tryggja sig. Menn fá greiddar prósentur af þeim líftryggingum sem þeir selja eða slysatryggingum eða öðru slíku og það getur út af fyrir sig verið jákvætt að vera með hvatakerfi um slík viðskipti sem leiða til þess að fleiri eru tryggðir en færri. Það geta auðvitað verið þættir í bankastarfseminni sem er jákvætt að séu vaxandi hjá tilteknu fyrirtæki og sé hægt að tengja eitthvert hóflegt kaupaukakerfi eins og allt að 1/4 af laununum. Ég held að það sem allir vilji varast séu þessar óhóflegu greiðslur og rangir hvatar.

Spurningar hljóta sérstaklega að vakna um aðila eins og þá sem eiga að sinna eftirliti. (Forseti hringir.) Þar hljóta þá að vera bónusar fyrir að afhjúpa eitthvað sem því tengist.