144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tók þátt í umræðu um þetta þingmál hér í gær og nálgaðist það á tvennan hátt, annars vegar það sem ég kallaði míkró-nálgun, sem snýr að regluverkinu sem hér er verið að færa í lög samkvæmt frumvarpinu, og hins vegar makró-nálgun, að skoða og ræða fjármálaumhverfið í heild sinni. Ég tel að þetta verði ekki slitið úr tengslum hvort við annað. Í þeirri spyrðu sem við ræðum nú, það eru ein tvö, þrjú mál sem snúa að fjármálakerfinu, vantar sitthvað. Hér hefur legið óafgreitt mál sem snýr að aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða. Það er frumvarp sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er fyrsti flutningsmaður að en við erum nokkur önnur sem eigum aðild að þessu frumvarpi. Ég flutti þetta mál margsinnis í aðdraganda hrunsins og þá hefði betur verið hlustað á varnaðarorðin sem voru uppi og áhuga á að koma fram einhverjum breytingum á fjármálastofnunum í þá veru að aðskilja viðskiptahluta bankanna annars vegar og fjárfestingarþáttinn hins vegar.

Við höfum rætt í þessari umræðu um eignarhald á bönkunum. Menn hafa nálgast mikilvægi þess að hafa kjölfestu í eignarhaldi almennings í fjármálakerfinu út frá ýmsum sjónarhornum og á undanförnum dögum hafa menn rætt um gríðarlegan hagnað sem bankarnir hafa sýnt, upp undir 100 milljarða samanlagt á síðasta ári. Það hefur komið fram að þeir taka í gróða 30 milljarða af þjónustugjöldum. Það hefur komið fram, og það þekkja þeir sem málin brenna á, að vextir eru himinháir núna. Menn spyrja ýmissa spurninga í því sambandi: Hvers vegna eru þessi þjónustugjöld ekki keyrð niður og vextir sömuleiðis í þágu viðskiptavina bankanna?

Ég er svo ljónheppinn að enn eru til umræðu mál sem tengjast fjármálakerfinu, eins og ég vék að áðan, og ég mun koma að öllum þessum þáttum í umræðu um þau mál vegna þess að ég lít svo á að þetta sé heildstætt kerfi sem við erum að skoða þótt hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason, sjái ekki ástæðu til að virða menn svars sem vilja efna til umræðu um eignarhald á bönkunum.

Við höfum rætt hérna um kaupaukakerfi og þar sýnist sitt hverjum. Ég held að fleiri en færri hafi efasemdir um slík kerfi. Ég minnist þess, og við gerum það mörg sem unnum með námi eins og flestir Íslendingar gerðu hér áður, að það þótti gott að komast í uppgrip, mikla vinnu og þá hugsanlega akkorðsvinnu sem er eins konar kaupaukakerfi. Það er ekkert við það að athuga að vinna tímabundið við slíkar aðstæður, það er ágætt. En síðan eru önnur störf sem augljóst er að henta ekki slíkum kerfum. Lögreglumaður í akkorði sem fengi bónus fyrir að stinga fólki inn, væri það gott? Að sjálfsögðu ekki. Hann á að reyna að gæta laga og friðar en ekki með þessum hætti ef hægt er að komast hjá því. Sjúkraliði sem annast um veika manneskju, á hún að fá bónus fyrir að vera fljót að skipta á rúmunum eða á bónusinn að liggja í því sem ekki verður mælt, góðu viðmóti, að gefa sér tíma til að sinna þeim sem verið er að sinna? Kennarinn, í hverju á hans bónus að liggja?

Það er augljóst að í flestum störfum á þetta ekki við. Þetta á við í tímabundinni uppgripavinnu. Og þegar kemur að bönkunum, fyrir hvað eiga menn að fá bónus? Til að auka enn á þann gróða sem menn eru að hneykslast yfir núna? 100 milljarðar á árinu 2014? Fyrir að fá meira inn í þjónustugjöldum en gróðann sem ég nefndi áðan, 30 milljarða kr.? (Forseti hringir.) Það liggur í augum uppi í mínum huga að þetta gengur hreinlega ekki upp. Þess vegna á bónuskerfi ekki heima í fjármálakerfinu.