144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég deili áhyggjum hv. þm. Ögmundar Jónassonar af því að við séum að innleiða hér sömu hvatakerfin og áttu mjög ríkan þátt, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, í að svo fór sem fór. Það skapaðist ákveðinn kúltúr, ákveðin freistni, sem varð til þess fyrir hrun að mjög margir aðilar glötuðu miklu af því fé sem þeir höfðu haft mjög mikið fyrir að safna. Ég veit um fólk sem vann í láglaunastörfum, veitti sér ekki neitt og var sérstakur hópur sem var reynt að fá yfir í Sjóð 9. Það fólk tapaði miklu og hefur aldrei fengið það bætt. Það fólk er ekki í leiðréttingunni.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvaða leið væri betur fær. Það er margt í þessu frumvarpi, en væri ráð að leggja hreinlega til að bónusgreiðslum yrði breytt, sér í lagi gagnvart þeim sem eiga að veita aðhald í bönkunum? Það er svolítið skrýtið að það eigi að fara að veita þeim bónusa. Væri kannski ráð að borga þeim á annan hátt, t.d. hærri laun? Er hægt að laga þetta frumvarp eitthvað?