144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður sagði í sinni fyrstu innkomu áðan, að fjármálakerfið og þeir sem þar tróna efst á toppi séu að missa jarðsambandið. Menn tala nú um hin lágu laun landsbankastjórans og ég held að það sé engin tilviljun að hann er með mun lægri laun en gerist í hinum bönkunum. Þar kennir áhrifa frá eignarhaldinu, það er ekki spurning, engu að síður er þar talað um hálfa aðra milljón á mánuði. Í mínum huga kallast það mjög há laun miðað við íslenskan vinnumarkað. Þetta er til marks um það að þessi geiri í samfélaginu er að missa jarðsambandið og er að komast inn í sama farið og var hér áður, að menn réttlættu himinháar launagreiðslur til þeirra sem stýrðu för. Þetta er hluti af þeirri afsiðun sem markaðsvæðing fjármálakerfisins leiddi yfir okkur.

Varðandi bónusa almennt er það mín tilfinning að góður árangur góðs fjármálafyrirtækis stríði í rauninni gegn þeim markmiðum sem bónuskerfið leitast við að skapa. Það reynir að stuðla að því að bankarnir hámarki gróða sinn sem er þá á kostnað viðskiptavinanna, þeirra sem taka lánin, borga vextina og greiða þau himinháu þjónustugjöld sem bónusarnir eru veittir út á.