144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Meginkjarnarnir í þessu frumvarpi eru tveir. Annars vegar fjallar það um leiðir til þess að styrkja eiginfjárstöðu bankanna og hins vegar fjallar það um kaupaukakerfið eða bónuskerfi og ákveðna rýmkun á því.

Það er athyglisvert að eftir því sem umræðunni hefur fleygt fram eru menn eiginlega búnir að afgreiða þann partinn sem varðar eiginfjáraukninguna. Ég held að flestir séu sammála um það. Hins vegar hefur öll umræðan hnigið að því að vara við því með hvaða hætti er verið að slaka til gagnvart kaupaukakerfinu og það hafa komið fram margvíslegar varnaðarraddir, bæði frá stjórnarandstöðunni en líka frá hv. þingmönnum úr stjórnarliðinu.

Það skaut dálítið skökku við þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra flutti framsögu sína fyrir málinu, hann gerði vissulega ágæta grein fyrir því með hvaða hætti er búið um bónusana í þessu frumvarpi, en hann kom næstum því með grátstafinn í kverkunum til þingsins og bað það endilega að skoða hvort ekki væri mögulegt jafnvel að rýmka til, sem svo virtist sem hann sjálfur legði ekki til. Hann gerði skýra grein fyrir því með hvaða hætti sjónarmið Samtaka fjármálafyrirtækja hefðu komið fram, en þau vildu breyta frumvarpinu þannig að hluthafafundur gæti aukið bónusinn upp í allt að 200% og hæstv. ráðherra varði það meira að segja með því að vísa til Norðurlandanna þar sem það væri leyfilegt. Þau gengu náttúrlega ekki í gegnum sams konar bankakreppu og við, ekki heldur þegar þau lentu í sínum hremmingum upp úr 1990.

Það á kannski ekki að láta eitt yfir alla ganga. Ég tel að það séu lítil fjármálafyrirtæki eins og vátryggingarmiðlanir þar sem vel mætti hugsa sér að hafa kaupaukakerfi. Hins vegar eiga menn að gjalda varhuga við því eins og það er sett upp í frumvarpinu gagnvart stóru bönkunum, (Forseti hringir.) ég tek undir það hjá hv. þingmanni, en er hann reiðubúinn (Forseti hringir.) að skoða hugsanlega þessi smærri fyrirtæki sem ekki hafa kerfislæga áhættu í gegnum önnur gleraugu?