144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dreg þá ályktun að þeir sem stóðu að smíði þessa frumvarps séu ekki jarðtengdir á þann hátt sem við helst vildum. Ég tek eftir því að umræðan í þingsal hefur snúið fyrst og fremst að neytendahliðinni og menn hafa einkum áhyggjur af henni. Þegar það er upplýst núna, sem kemur manni reyndar ekki á óvart, því miður, að samtök neytenda hafi verið sniðgengin við smíði frumvarpsins tel ég það mjög ámælisvert. Það er mjög mikilvægt að við meðferð málsins, í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar, sé hugað sérstaklega að þessum málum.

Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að um ýmsa þætti þessa frumvarps sé enginn ágreiningur. Við viljum hafa traust regluverk um fjármálastofnanir okkar og reyna að sjá til þess að í lögum og reglum séu eins margir varnaglar og kostur er til að forða okkur frá því sem gerðist á árinu 2008. Við viljum ekki að það endurtaki sig. Kannski horfa menn þess vegna til þeirra hvata sem verið er að hlaða inn í kerfið og eru nákvæmlega sama eðlis og við upplifðum hér í aðdraganda hrunsins, þ.e. að kynda undir gróðafíkn.