144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér á sér mjög áhugaverð umræða. Ég held að það verði aldeilis fjör í nefndinni þegar menn fara yfir þetta mál vegna þess að það tekur á mjög mörgum þáttum í þeim ramma sem við höfum smíðað og erum með utan um fjármálakerfið okkar og fjármálafyrirtækin. Margt hér er afar jákvætt að mínu mati og á mörgum stöðum er tekið á hlutum sem skýra umhverfið og líka er skerpt á ábyrgð og öðru slíku. Mig langar aðeins að byrja á því að nefna nokkur atriði í því sambandi, aðallega tvennt. Ég ætla að byrja á því að viðurkenna, maður á alltaf að gera það, að ég hef ekki náð að kafa ofan í allar efnisgreinar frumvarpsins þannig að ég ætla bara að tæpa á nokkrum atriðum sem ég hef farið yfir og hafa vakið með mér spurningar sem valda því að ég er hingað komin til að varpa þeim inn í umræðuna og senda þær með sem veganesti inn í vinnu nefndarinnar.

Í fljótu bragði er jákvætt að hér sé verið að taka á og skerpa og styrkja eftirlit stjórnarmanna með heildarstarfsemi fyrirtækisins. Eins og kemur fram í greinargerðinni er verið að gera breytingar á kafla laganna um stjórn og stjórnarhætti fjármálafyrirtækja. Þar er margt jákvætt á ferðinni að mínu mati og það skiptir mjög miklu máli að hlutverk stjórnarinnar sé skýrt eins og verið er að gera hér og að ábyrgð stjórnar séu settar nákvæmar reglur. Það er allt saman vel og ég fagna því.

Þá finnst mér líka jákvætt að hér sé verið að setja ákvæði um að fjármálafyrirtæki skuli setja á stofn sérstaka áhættunefnd. Henni ber að afla upplýsinga sem snúa að áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækis, yfirfara þær og vera stjórninni til ráðgjafar. Þetta er allt saman gott og blessað.

Það sem mér finnst líka jákvætt er að hér eru breytingar á þeim kafla laganna þar sem fjallað er um eignarhluti og meðferð þeirra. Í frumvarpinu er verið að styrkja reglurnar sem heimila Fjármálaeftirlitinu að hafa viðvarandi eftirlit með hæfi eiganda virkra eignarhluta. Þar eru jákvæðar breytingar á ferðinni, að skerpa á þessum þáttum. Eins og kemur fram er líka verið að hnykkja á grunnreglu laganna um að kaup aðila á virkum eignarhlut gangi fyrst í gegn þegar Fjármálaeftirlitið hefur metið þann eiganda hæfan til að fara með slíkan eignarhlut.

Það vakna hjá manni spurningar þegar við erum að ræða þessa eignarhluti, að menn séu að hnykkja á þeim þætti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur í sínum ræðum farið ágætlega yfir þá stöðu sem uppi er hvað varðar eignarhaldið á bönkunum, a.m.k. tveimur af þremur stærstu bönkunum hér á landi, og mikið hefur verið um rætt sem eru að mestu leyti í eigu kröfuhafa. Það er mjög einkennileg staða til lengdar. Þetta var ofsalega eðlileg ráðstöfun í upphafi en þetta fer að verða til lengdar litið sérkennileg staða fyrir okkur og mikilvægt að menn finni leiðir til að taka á því.

Svo er krafan um gagnsæi hvað varðar losun hafta, krafan í því sambandi snýr ekki síst að þeirri staðreynd að það er algjörlega ljóst að þegar menn fara að losa um höftin og þrotabúin að verða uppgerð muni gríðarlegar eignir skipta um hendur, þar á meðal eignarhlutir í þessum bönkum. Þess vegna er krafan um gagnsæi, vegna þess að það er ekki sama hvernig það er gert. Okkur stendur ekki á sama um með hvaða hætti það er gert þó að við vitum að það sé óhjákvæmilegt. Ég nefni það í framhjáhlaupi í umræðum um þetta mál.

Virðulegi forseti. Við förum vonandi að sjá fyrir endann á eignarhaldi kröfuhafanna á þessum tveimur bönkum og þá þurfum við líka að fara að ræða með hvaða hætti við viljum sjá eignarhaldi bankanna komið fyrir til lengri tíma. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki endilega að vera mjög stórtækt á sviði bankareksturs, en hins vegar hefur mér þótt gott fyrirkomulag að ríkið eigi meiri hluta í einum banka. Þess vegna sé ég því ekkert til fyrirstöðu að ríkið mundi selja minni hluta í Landsbankanum og deila þannig ábyrgðinni eða eigninni í honum með öðrum, helst í sem dreifðastri eignaraðild. Hið sama á við um stóru bankana sem ríkið á núna bara hlut í. Mér finnst skipta máli að við reynum að tryggja sem dreifðasta eignaraðild. Ég held að það sé heilbrigðara og að það sé mjög mikilvægt í ljósi sögunnar og okkar dapurlegu reynslu hvað varðar eignarhald á bönkum og fyrri einkavæðingar. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, nægir hafa gert það og tíminn er skammur og margt að ræða.

Menn mega ekki vera viðkvæmir fyrir því þó að við séum að ræða frumvarpið. Þetta er stór og mikill bálkur um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og þá er eðlilegt að menn ræði þessa þætti samhliða. Það er eðlilegt að spurningar tengdar eignarhaldi á bönkunum, því hvernig þessar eignir munu skipta um hendur þegar kröfuhafarnir fara út o.s.frv., séu líka uppi á borðum þegar við ræðum þetta mál. Mér finnst skipta gríðarlegu máli að vel sé með því fylgst og ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði þetta.

Þó að ég hafi talið upp ákveðna þætti sem ég tel til verulegra bóta eru hér ákveðin atriði sem ég set mikla fyrirvara við, ekki síst það sem fjallað er um hér og hefur verið kallað starfskjarastefna og breytileg starfskjör. Hugtakið breytileg starfskjör þýðir kaupaukar eða bónusar eins og við þekkjum það og mest hefur verið rætt um í tengslum við þetta. Ágætissamlíkingar hafa komið um það efni en ég verð að segja að mér þykir skjóta skökku við að við ætlum að fara aftur til baka og gera breytingu í þá veru að taka upp bónusakerfi að nýju. Hinir ýmsustu varnaglar hafa verið slegnir við því hér og menn tekið ýmis dæmi úr sögunni um hvaða áhrif þetta bónusakerfi hafði í aðdraganda hrunsins. Ég verð að segja að við eigum að stíga mjög varlega til jarðar. Það sem angrar mig í þessu tilfelli er að það er ekki bara verið að taka upp bónusakerfi hjá almennum starfsmönnum heldur er aftur verið að taka upp bónusakerfi hjá yfirstjórnendum, þó að það sé með ákveðnum takmörkunum, en það versta af öllu er að það er verið að opna fyrir bónusa hjá eftirlitsaðilum innan fjármálastofnananna. Það þykir mér varhugaverðast af þessu öllu saman. Ég sé ekki í þeim köflum sem ég hef lesið í frumvarpinu og greinargerðinni nein efnisleg rök færð fyrir því að þeir sem annast innra eftirlit, regluverðir og áhættustýring, eigi að fá bónusa. Ég sé það ekki. Það eina sem hér er gert er að menn bera saman við Norðurlöndin. Menn draga fram hvað er gert annars staðar. Menn draga fram það sem segir í tilskipun Evrópusambandsins, en það eru ekki færð nein efnisleg rök fyrir þessu. Ég held og veit og trúi því að þetta verði einn þeirra þátta sem hljóta að verða skoðaðir í nefndinni og skoðaðir vel.

Það er gerð atlaga að því að koma með efnisleg rök fyrir þessu, eins og að mjög strangar íslenskar sérreglur geti skert samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Ég held að mjög margt annað en þetta geti skert samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Mér finnst það ekki standast, a.m.k. ekki við núverandi aðstæður. Ég trúi því að nefndin fari mjög vandlega yfir þetta.

Ég get alveg keypt það að undir einhverjum kringumstæðum hjá minni fjármálastofnunum, eins og hér hefur verið rætt um, þurfi að vera einhvers konar sveigjanleiki í starfskjörum þannig að út af sveiflum í rekstri geti menn deilt góðum tíma með starfsfólki sínu af því að það tekur á sig tiltölulega lág laun þess í milli. Það þarf þá að ræða það þannig en ekki breyta heilu kerfi fyrir banka sem eru stórir, þar sem raunveruleg kerfisáhætta er til staðar, sem er kannski síður hjá minni aðilunum þótt hún sé hugsanlega einhver. Ég ætla ekki að úttala mig um það hér. Mér finnst að menn þurfi að ræða þetta út frá efnislegum forsendum en ekki bara út af samanburði við það hvernig reglurnar eru annars staðar. Ég hef heyrt á nefndarmönnum að þetta verði klárlega gert. Það er vel og ég fagna því vegna þess að mér finnst skipta máli að við vöndum okkur í þessu máli og stígum mjög varlega til jarðar.

Mér finnst óþarfi að tala um þetta, eins og mér finnst gert í greinargerðinni, eins og íþyngjandi reglur að heimila ekki 100% bónusa fyrir þá sem eru yfirstjórnendur eða í eftirliti o.s.frv. af því að þeir fái bara hlutabónus. Mér finnst það orðalag ekki við hæfi í þessu tilfelli. Það eru ekki íþyngjandi reglur að taka ákvörðun um að þeir sem eru í eftirliti og öðru slíku séu undanskildir því að fá bónusa. Við erum að tala um alveg gríðarlega mikilvæga þætti fyrir land eins og Ísland, að til að tryggja fjármálastöðugleika stígi menn varlega til jarðar. Bankarnir hér eru hlutfallslegar gríðarlega stórir. Þeir hafa gríðarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og þess vegna er að mínu mati ekki hægt að tala um að það sé með einhverjum hætti íþyngjandi þótt menn taki ákvörðun á efnislegum forsendum um að undanskilja þessa aðila. Það er miklu heldur verið að stíga varlega til jarðar.

Það er ekki allt í þessu varðandi starfskjörin — menn gera hér tilraun, og ég ætla ekki að vera ósanngjörn með það, til að slá varnagla og það er farið ágætlega yfir það, svo sem um að hægt sé að endurkrefja starfsmann um þegar greidd breytileg starfskjör — bara bónus, við skulum segja það eins og það er — ef í ljós kemur að hann hafi tekið þátt í einhverju sem olli vandkvæðum. Það er vel en ég held ekki að það dugi. Að minnsta kosti er ég ekki til í að samþykkja þetta fyrr en menn leggja fram efnislegar ástæður fyrir því að þetta verði gert.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin, vegna þess að tíminn flýgur frá mér, vil ég segja að að undanförnu hefur verið talað mjög mikið um gríðarlegan hagnað bankanna. Ég geri ráð fyrir að nefndin muni nota ferðina og skoða arðsemiskröfuna og annað slíkt sem hefur áhrif á að menn skila slíkum hagnaði, ekki síst í ljósi þess að forsætisráðherra hefur verið mjög stóryrtur í þessum efnum undanfarið. Mér finnst skipta mjög miklu máli að þegar forsætisráðherra talar með jafn afgerandi hætti og hann gerir í þessu máli skili menn til okkar hinna hvernig þeir ætla að breyta þessu, hvernig þeir ætla að hafa áhrif á þetta. Það þýðir ekki bara að vera forsætisráðherra á Íslandi og standa upp á endann og gagnrýna. Menn þurfa að leggja fram einhverjar hugmyndir og tillögur um það með hvaða hætti þeir ætli að gera breytingar. Með fullri virðingu fyrir þeim framsóknarmönnum sem hér sitja hefur mér oft fundist skorta á það hjá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að skila því sem þeir segjast ætla að skila. Við sjáum það í verðtryggingarmálinu og ég vona að það verði ekki í þessu. Að minnsta kosti finnst mér að þegar forsætisráðherra talar með þessum hætti þurfi hann að skila (Forseti hringir.) okkur niðurstöðu.