144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er allt undir. Hér erum við með frumvarp sem telur 45 greinar um fjármálakerfið og þá er eðlilegt að menn ræði ýmislegt því tengt. Hér er beinlínis verið að fjalla um breytingar á þeim kafla laganna sem snýr að eignarhlutum, meðferð þeirra o.s.frv., þannig að það er ekkert óeðlilegt að við séum að ræða í því samhengi með hvaða hætti við sjáum þessa hluti þróast. Við eigum að vera stöðugt í samtali um það hvernig við sjáum þessa hluti fyrir okkur til skemmri og lengri tíma. Ég er til í að svara því til skemmri tíma: Ég tel ekki efnislegar ástæður til þess að selja hlutdeild í Landsbankanum eins og staðan er núna en ég ætla ekki að útiloka að það geti gerst. Þá sé ég samt ekki fyrir mér að hann fari úr ráðandi eigu ríkisins. Það þurfa að vera efnislegar ástæður fyrir því að það verði gert og ég er ekki þeirrar gerðar að ég sé til í að þvertaka fyrir það um aldur og ævi að það geti gerst.

Virðulegi forseti. Svo er líka hitt sem menn þurfa að skoða og það er ástæðan fyrir því hvernig bankarnir hagnast svona eins og raun ber vitni. Ég er sammála hv. þingmanni í því að auðvitað er sárt að horfa til þess hversu mikið þeir taka inn í þjónustugjöldum og öðru slíku. Ég tel eðlilegt að við séum að tala um það líka í þessari umræðu og ég tel eðlilegt að við reynum að skoða með hvaða hætti það kemur til. Mér finnst eðlilegt að spyrja hreinlega þá sem stýra þessum fjármálastofnunum frekar út í það og reyna þá að finna einhverjar leiðir til að koma þessu aftur til neytenda. Það er einfaldlega staðreynd hér á landi að við höfum ekki mikið val. Ef einn hækkar hækka hinir líka. Þetta hangir allt saman. Það er ekki (Forseti hringir.) hrein samkeppni á þessum markaði, það verður ekki sagt, og maður flytur (Forseti hringir.) sig ekkert auðveldlega milli banka. Til hvers (Forseti hringir.) fer maður þá? Það er ekkert betra sem bíður manns annars staðar.