144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar innihaldsríka og málefnalega yfirferð um þetta mál. Margt var þar fróðlegt sem nefndin mun án efa taka til skoðunar.

Ég er með nokkrar spurningar. Það var náttúrlega margt gott í þessu en líka var vakin athygli á ýmsu vafasömu eins og bónusunum, að núna næðu þeir bara til vissra starfsmanna og að þak væri við 25% en engin bönd væru sett á aðra starfsmenn. Það er annað sem ég tek eftir í þessu, ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur skoðað það sérstaklega, en á eiginfjáraukann sem er ætlaður til að auka öryggi kerfisins og draga úr áhættu, er sett 2% þak. Hann snýr að kerfislega mikilvægum fyrirtækjum, eiginlega þeim fyrirtækjum þar sem ekkert þak ætti að vera á þessum eiginfjárauka heldur ætti að vera einmitt svigrúm til þess að krefjast sem hæsts eigin fjár af þeim fyrirtækjum sem mega alls ekki falla og sjá til þess að þau séu með ríkulegt eigið fé. Þar er sett þak. Það er spurning hvort hv. þingmaður geti hjálpað mér að skilja hvers vegna slíkt þak sé sett og hvort þetta séu hugsanlega bara fingraför einhverra mjög duglegra lobbíista frá stóru fyrirtækjunum og stóru hagsmunaaðilunum, hvort þeir séu farnir að stýra lagasetningu í Evrópusambandinu. Ég er ekki að reyna að tala illa um Evrópusambandið, þetta á við um öll stórríki og alla lagasetningu, í Bandaríkjunum og Evrópu eflaust líka. Maður sér fingraför sérhagsmuna stórfyrirtækjanna. Það á að leyfa bónusa upp í 200%, það er ramminn, á þá sem eru að stýra, eins og réttilega var bent á hérna, þeim sem eru í innri áhættustýringu og lykilstöðum í fjármálafyrirtækjum. (Forseti hringir.) Það kemur frá Evrópusambandinu sem glímir við bankakreppu. Er þetta ekki einkennilegt?