144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurninguna. Eins og maður sér með því að lesa rannsóknarskýrsluna um hrunið sem var gerð fyrir Alþingi held ég að freistnivandinn feli í sér, eins og kom fram og var eiginlega mottó skýrslunnar: Löglegt en siðlaust. Það er svo auðvelt að lenda í freistnivanda þegar maður er með bónuskerfi, í það minnsta þannig kerfi að það hvetji menn til — ja, það er bara of freistandi þegar við erum að tala um tölurnar. Ég hvet fólk til að klára að lesa þennan kafla þar sem farið er yfir launin sem fólk fékk og bónusana, þetta er ekkert smá. Ef maður getur keypt sér snekkju fyrir bónusgreiðslur er mikil freistni í því og það bitnar á þeim sem vilja vera heiðvirðir bankastarfsmenn. Margir sem voru að vinna í bönkunum lentu ekki í þessum freistnivanda, aðallega fólkið á gólfinu. Þeir sem þurftu að skila — þetta er svolítið eins og símasala, maður fer ekki setja fólk sem er að sýsla með peninga og á að þjónusta almenning eða er komið út í það að vera kannski með tuttugufaldan þjóðarhag — ekki þjóðarhag heldur vergar þjóðartekjur — stefna öllu í háska þegar það stendur frammi fyrir svona freistnivanda. Þetta er eins og að setja kettling inn í fuglabúr.