144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég mætti betrumbæta líkingu hv. þingmanns hefði ég heldur orðað það svo: Eins og að setja mink inn í hænsnakofa.

Ég taldi, herra forseti, að umræðunni væri kannski að ljúka vegna þess að hér höfum við farið yfir öll svið þessa máls, en ég verð að segja alveg eins og er að sú innsýn sem hv. þingmaður veitti með lestri sínum áðan úr þessari skýrslu, sem okkur stendur auðvitað í fersku minni, var slík að ég tel að það verðskuldi í sjálfu sér sérstaka umræðu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra áður en við látum hér nótt sem nemur. Ég vildi leyfa mér að skora á hv. þingmann að notfæra sér rétt sinn til annarrar ræðu og ljúka lestrinum því að miðað við það sem hv. þingmaður sagði undir lok ræðu sinnar kemur þar í ljós hversu miklir bónusarnir voru í krónum taldir. Þeir voru jafnvel svo miklir að menn gátu keypt sér snekkjur.

Í lokin, herra forseti: Hvað finnst hv. þingmanni um þá staðreynd að frumvarpið heimilar að greiða þeim bónus sem eiga að hafa eftirlit með áhættu (Forseti hringir.) innan bankanna?