144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að það væri mikið óráð að selja Landsbankann. Ég er sammála hv. þingmanni um að á meðan umhverfið er eins og það er þurfum við að hafa kjölfestubanka í eignarhaldi þjóðarinnar og undir eftirliti þjóðarinnar. Það sem mér finnst líka mikilvægt og mundi vilja sjá er smærri banki. Mér finnst ekki gott að við séum með hefðbundna þjónustubanka sem eru „too big to fail“, það stórir að þeir hrynja á herðar þjóðarinnar ef þeir tútna of mikið út og ef bónuskúltúrinn kemur aftur á og öll sú áhættusækni sem því fylgir.

Ég held að það séu þannig tímar, við erum á merkilegum tímum þar sem miklar umbreytingar eru að hefjast og hafa hafist sem við sjáum ekki oft á Alþingi af því að við erum mitt inni í kerfinu. Það er gríðarlega sterk krafa og gríðarlega miklar sviptingar í heiminum, krafa um miklu meiri þátttöku og ábyrgð frá almenningi. Frekar en að setja svona regluverk fram og selja gulleggin okkar held ég að við ættum að hlúa að regluverki sem tryggir að við getum haft hér fjölbreyttari þjónustu þegar kemur að bankaviðskiptum. Ekki hef ég orðið vör við mikla samkeppni á milli þessara banka.