144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í annarri ræðu minni gera að umtalsefni nokkra þætti sem ég vék þó að í fyrri ræðu en tel þurfa aðeins frekari umfjöllunar við, ekki hvað síst í ljósi kynningar sem við fengum í efnahags- og viðskiptanefnd á frumvarpinu af hálfu fjármálaráðuneytisins í morgun. Þau álitamál lúta að ákvæðum frumvarpsins um hina nýju eiginfjárauka. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögleiddir verði fjórar tegundir eiginfjárauka, þ.e. sveiflujöfnunarauki sem á að draga úr áhættu vegna efnahagssveiflna á rekstur fjármálafyrirtækja, verndunarauki sem á að styðja við eignastöðu viðkomandi fyrirtækis, eiginfjárauki vegna kerfisáhættu og í þeim tilvikum þar sem um kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki er að ræða.

Það sem er umhugsunarefni að mínu viti er að við meðferð málsins í nefndinni þarf að taka sérstaklega til umfjöllunar hvernig þessir ólíku eiginfjáraukar eiga að virka saman og vega saman. Við vitum að í 84. gr. núverandi laga um fjármálafyrirtæki er að finna grundvallarregluna um 8% eiginfjárkröfu. Til viðbótar er í dag byggt á svonefndu SREP-ferli Fjármálaeftirlitsins sem metur áhættu fjármálafyrirtækja og veldur því að í tilvikum fjármálafyrirtækjanna núna, stærstu bankanna, er eiginfjárkrafan einhvers staðar í kringum 20% og það er byggt á mati á hverri stofnun fyrir sig. Það skiptir mjög miklu máli að fá það alveg skýrt hvernig samspil þessara ólíku aðferða verður, þ.e. hvaða áhrif það muni hafa á eiginfjárkröfur á sérstaklega bankana stóru ef þessi breyting verður að veruleika og hvernig lagaheimildum vegna hinna ólíku verndareiginfjárauka verður nákvæmlega beitt.

Það kemur til dæmis fram að hinn sérstaki verndarauki eigi að geta numið 2,5% af eignum og þar af leiðandi væri grunnreglan 10,5 miðað við 8% sem grunnviðmið. Síðan er gert ráð fyrir að sveiflujöfnunaraukinn geti numið að 2,5% til viðbótar þar ofan á. En það er ekki ljóst með hvaða hætti eiginfjárauka vegna kerfisáhættu verður komið fyrir. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að allir þrír bankarnir eru fyrirtæki sem valda kerfisáhættu vegna stærðar þeirra og umfangs í íslensku efnahagslífi. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu getur eiginfjárauki vegna kerfisáhættu minnst verið 1% af áhættugrunni, ekkert þak á heimildinni en ríkari kröfur eru gerðar til stjórnvalda ef eiginfjáraukinn er ákveðinn yfir 3% eða 5%.

Við þurfum að leggja það niður fyrir okkur í vinnu nefndarinnar, við þurfum að fá skýr svör frá Fjármálaeftirlitinu hvernig þessari aðferðafræði verður beitt og hvernig hún kallast á við annars vegar gömlu regluna um 8% og hins vegar við SREP-ferlið sem gert er ráð fyrir að haldi áfram í nýju kerfi. Við verðum auðvitað að fá ákveðna tilfinningu fyrir því hvort í lögfestingunni hér felist umtalsverðar líkur á að eiginfjárkröfur til stóru bankanna minnki eða hvort þær aukist eða hvort þær verði að líkum óbreyttar svo fremi aðstæður breytist ekki. Þetta skiptir auðvitað máli að hafa vel greint.

Það skiptir líka máli að við áttum okkur alveg til fulls á því, sem mér finnst ekki alveg nógu skýrt í frumvarpinu, hvert svigrúm stjórnvalda er nákvæmlega í hverju tilviki, hvort það sé bundið af ytri mörkum með öðrum hætti en er núna þar sem SREP-ferlið í sjálfu sér markar bara efri mörk áhættuvogarinnar sem hægt er að leggja á. Þannig að Fjármálaeftirlitið er ekki í dag t.d. bundið af því að hætta í 20%.