144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:58]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa vakið athygli á þessari óvissu og hversu óljóst það er fyrir þingheim raunverulega hvaða eiginfjárkröfu við ætlum að gera til stóru fjármálafyrirtækjanna. Ég held að það sé algerlega sett í hendur embættismanna, sem við treystum auðvitað til góðra verka en menn þurfa hins vegar alveg gríðarlega sterk bein til þess að hækka eiginfjárkröfur til þessara banka þegar á bjátar og þegar á reynir. Það er núna eins og ég hef áður sagt, þegar við erum með þessa svakalegu timburmenn eftir síðasta hrun, sem við erum í hinu rétta andrúmslofti til þess að setja skynsamleg viðmið. Það stakk mig sérstaklega og ég tók eftir því að hv. þingmaður benti á sjálfur að það er sett hámark á þann eiginfjárauka sem skiptir mestu máli, 2% hámark, sem snýr að kerfislega mikilvægum fyrirtækjum, hættulegustu fyrirtækjunum sem ættu að hafa hæst eigið fé. Hvar í allri þessari lagasmíð var þetta hámark sett við 2%? Hverjum er það þóknanlegt? Er það þóknanlegt almenningi i Evrópusambandinu eða þeim sem kusu þá embættismenn eða þá þingmenn sem settu þessi lög, þennan ramma? Það er algjör óvissa fyrir okkur í efnahags- og viðskiptanefnd, við vitum ekki hvort hann verður núll eða 2%, við höfum bara ekki neina hugmynd um það og enga vissu.

Þannig að ég velti því fyrir mér hvort það sé ástæða til þess að mati hv. þingmanns að þingið stígi fastar niður. Jú, það er kannski sjálfsagt að sveiflujöfnunaraukinn sé einmitt falinn embættismönnum af því að það er ófyrirsjáanlegt hvaða sveiflur verða, að hann verði endurskoðaður og hafi einhver mörk, 0–2,5% hljómar skynsamlega, en kannski þarf þingið að stíga fastar niður. Það eina sem ég sá um 2% aukahámarkið er að það má alls ekki taka gildi fyrr en á miðju ári 2016. Það var hitt sem vakti furðu mína.