144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[19:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi máls vil ég gera litla athugasemd sem varðar tengingu þessa frumvarps, ESB og stjórnarskrár Íslands. Það liggur fyrir að miklar breytingar standa fyrir dyrum innan Evrópusambandsins sem varða eftirlit með fjármálakerfum og að Íslendingar munu þurfa að taka upp margvíslegar breytingar á sínum lögum í kjölfar þess. Það vill hins vegar svo til að þær breytingar eru að stórum hluta að öllu óbreyttu í blóra við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Það er að vísu þannig að í ákveðinni útfærslu sem tekur mið af tveggja stoða kerfinu innan EES hafa fjármálaráðherrar EFTA/EES-landanna komist að ákveðinni niðurstöðu um hvernig þeir ætla að innleiða þetta. Það hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi Íslendinga. Ég er ekki tilbúinn að segja að það standist stjórnarskrá. Í öllu falli felur það í sér möguleg inngrip í fjármálafyrirtæki sem rekja má til stofnana sem eru yfirþjóðlegar, Íslendingar hafa þar að vísu fulltrúa en eru í minni hluta, a.m.k. fræðilega. Þetta vil ég segja vegna þess að ég sé ekki betur en að þó að seinni pakki þeirra breytinga eigi eftir að koma teygi þessar breytingar sig inn í þetta frumvarp. Það er eitt af því sem þarf þá að vera búið að ganga frá í þessu þingi áður en menn gera þetta frumvarp að lögum.

Þessi umræða hefur verið mjög jákvæð og málefnaleg og það má segja að í grundvallaratriðum séu menn sammála markmiði frumvarpsins sem er tvíþætt, í fyrsta lagi að styrkja eigið fé bankanna til þess að þeir geti verið í betri færum með að mæta áföllum í framtíðinni ef yfir dynja og í öðru lagi að draga úr áhættu innan kerfisins með því til dæmis að reisa skorður við kaupaukakerfum innan fjármálastofnana. Fyrir utan þessi kjarnaákvæði hef í mínum ræðum í gegnum umræðuna lagt áherslu á að mér finnst mikilvægt að það sé allt kirfilega hnýtt í þessu frumvarpi. Mér finnst svo ekki vera, mér finnst það á köflum heldur laust kveðið. Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að það sé fullmikið vald fært til aðila sem má segja að séu ekki undir beinu eftirliti kjörinna fulltrúa. Það hefði mátt hnýta verksvið þeirra miklu öflugar hér.

Hins vegar vil ég segja að í þessari umræðu hefur komið fram að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, virðist vera nákvæmlega sömu skoðunar og þau okkar sem höfum goldið varhuga við tilteknum atriðum. Hann hefur sömuleiðis bent mjög vel, að ég tel að minnsta kosti, á ýmsa veikleika sem felast í því með hvaða hætti á að koma fram meginmarkmiðum sem varða styrkara eigið fé bankanna. Ég segi hins vegar að vegna viðbragða hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar treysti ég því og er fullviss um það að meðferð þessa máls verður í mjög góðum höndum undir forustu hans. Það gerir það kannski að verkum að ég sofna tiltölulega rólegur í kvöld, en að öðru leyti vil ég segja eftirfarandi: Mér finnst skorta á í þessu frumvarpi að það sé algjörlega ljóst að sú styrking á eigin fé bankanna sem þar er gert ráð fyrir komist til framkvæmda. Það sem er óljóst í mínum huga, og mér fannst þeir tveir hv. þingmenn sem ræddu sín á milli saman áðan líka vera á svipuðum miðum, er hvernig á að gera það. Matið á því hvenær á að styrkja eigið fé með því að taka upp hina ýmsu eiginfjárauka sem eru samtals fimm talsins sem kveðið er á um í frumvarpinu er lagt í hendur ráða, stofnana og embættismanna sem eiga að taka ákvarðanir um það. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að skoðast mjög rækilega við vinnslu þessa frumvarps hvort ekki eigi að slá það bara í gadda í frumvarpinu. Við vitum nefnilega að fyrst og fremst á stundum eins og núna, þegar eigið fé er sterkt, er hægt að knýja slíkt til framkvæmda. Þegar hallar undan fæti er það tæknilega miklu erfiðara.

Að lokum, herra forseti, að því er varðar kaupaukakerfið vil ég rifja það hér upp að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með skilgreiningu sem mér finnst mikilvæg, hann vildi ræða aðgerðir gagnvart því að styrkja eigið fé bankanna annars vegar og hins vegar kaupaukakerfin út frá því að skilgreina kerfislæga mikilvægar fjármálastofnanir sérstaklega og að þær umfram aðrar sæti þyngri kvöðum varðandi framkvæmd styrkingar eigin fjár og sömuleiðis að því er varðar innleiðingu og rýmkun á kaupaukakerfinu. Þar er áhættan mest. Ég tek undir það og tel að það sé eitt af því sem hv. nefnd eigi að taka mjög rækilega til skoðunar í sinni vinnu.