144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innheimtuaðgerðir LÍN.

[10:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú í vikunni bárust fréttir af því að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefði sent 8 þús. bréf vegna yfir 5 þús. lána til ábyrgðarmanna sem vissu ekki að þeir væru í ábyrgðum hjá sjóðnum, til erfingja fólks sem einhvern tímann gekkst í ábyrgð fyrir námslán. Það er sem sagt ný aðferðafræði lánasjóðsins að krefja erfingja ábyrgðarmanna um greiðslu námslána sem ekki innheimtast. Þetta hefur ekki verið gert áður, það er ný stefna hjá sjóðnum að hafa þetta sem almenna stefnu. Í lögum um ábyrgðarmenn sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi 2009 er að finna ákvæði í 7. gr. um að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er um vanefndir lántaka, um andlát lántaka o.s.frv. Hvernig hægt er að samræma lagakröfu um að senda upplýsingar svo fljótt sem kostur er þeim praxís að senda nú, sex árum eftir gildistöku laganna, upplýsingabréf til ábyrgðarmanna er óskiljanlegt.

Þessi framganga gengur þvert gegn markmiði þeirra laga sem sett voru árið 2009 um ábyrgðarmenn, um að ryðja því krabbameini úr íslensku fjármálakerfi sem þriðja manns ábyrgðir eru. Þess vegna er ekki lengur krafist ábyrgðarmanna við veitingu nýrra lána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Þessi nýja stefna lánasjóðsins hefur þau stórfurðulegu áhrif að ef lántakandi sjálfur deyr eru börn hans sem hafa notið menntunar hans í uppeldi og framfærslu laus allra mála en börn og barnabörn og barnabarnabörn ábyrgðarmanna úti í bæ hundelt út yfir gröf og dauða. Ekkert sýnir betur hversu fráleit þessi aðferðafræði er.