144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innheimtuaðgerðir LÍN.

[10:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú yfirlýsing hv. þingmanns að hér sé um að ræða nýja stefnu, stefnubreytingu, sé mjög umdeilanleg fullyrðing. Frá árinu 2012 hefur verið gengið eftir þessum ábyrgðum og hv. þingmanni ætti að vera það kunnugt, það hefur að nokkru verið til umræðu í fjölmiðlum. Það sem hér gerðist var einfaldlega það að send voru út bréf til að gera þeim sem þau fengu grein fyrir þeirri stöðu sem uppi væri, þ.e. þetta voru upplýsingabréf, ekki innheimtubréf. Það var verið að upplýsa fólk um þær ábyrgðir sem þar lágu undir. Það er rangt sem hér er sagt að hér sé um einhvers konar stefnubreytingu að ræða. Hv. þingmaður hefði þá átt að koma hingað strax árið 2012 og ræða stefnumörkunina sem þá var tekin upp.

Þá er líka rétt að hafa í huga að þegar um er að ræða ábyrgðir sem falla á þrotabú eru það ekkert öðruvísi kröfur en falla á þrotabú og eru gerðar upp samkvæmt þeim reglum sem um þær gilda. Síðan eiga áfram þeir sem verða fyrir því að slíkar ábyrgðir falla á þá kröfurétt á þann sem ekki hefur greitt af láninu. Hér er um verulegar upphæðir að ræða, virðulegi forseti, sem skiptir máli fyrir okkur að séu hafðar til hliðsjónar.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður hefur sagt, það er búið að gera breytingar á ábyrgðarmannalögunum, en hér er um að ræða ábyrgðir sem sannarlega eru til staðar og voru samþykktar fyrir þau lög. Lánasjóðurinn og stjórn hans eru bara að uppfylla þá skyldu sem lög kveða á um. Lánasjóðsstjórnin hefur engar heimildir til að fella niður skuldir eða ábyrgðir.

Virðulegi forseti. Ég tel að þau ummæli hv. þingmanns að lánasjóðsstjórnin hafi farið á svig við lög krefjist nánari skýringar af hálfu þingmannsins úr ræðustól.