144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innheimtuaðgerðir LÍN.

[10:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þá er það hér með staðfest af hálfu hv. þingmanns að þetta ráðslag, þessi aðferðafræði, varð til árið 2012, (Gripið fram í: Ég var að …) í þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í um (Gripið fram í: … orð ráðherrans.) hríð. En ég ætla ekki að vera að skattyrðast úr ræðustól við hv. þingmann. Þetta er það fyrirkomulag sem varð til í tíð síðustu ríkisstjórnar, ríkisstjórn sem hann sat í. Síðan verða menn auðvitað að velta fyrir sér hvort þeir vilja gera einhverjar breytingar á, en þá ber að hafa í huga — (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, það voru send út upplýsingabréf í þessari viku (Gripið fram í: Send út bréf …) en sú aðferðafræði (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður talar hér um er á ábyrgð síðustu ríkisstjórnar. Hann hefði betur gert athugasemd þá.

Ég hjó líka (Gripið fram í.) eftir því þegar ég hlustaði á hv. þingmann tala úr ræðustól að hann hefði áhyggjur af því að fram undan væri í stjórnmálum, ég vitna hér í hv. þingmann, „hætta á endalausu lýðskrumi“, ég heyrði hv. þingmann segja það hér og áhyggjur hans. Ég lít svo á að þessi uppákoma hér og málflutningur sé einhvers konar tilraun hv. þingmanns til að sýna okkur dæmi um það hvers lags málflutningur það er sem mundi flokkast undir það að vera endalaust (Forseti hringir.) lýðskrum. (Gripið fram í.)