144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

losun hafta.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á mánudaginn spurði ég hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hans til þess hvort eðlilegt væri að áætlun og aðgerðir um losun hafta væru leynilegar. Hann ítrekaði það í þessum ræðustól að það væri hans mat að mjög mikilvægt væri að aðgerðaáætlun um losun hafta yrði leynileg því að þar væru miklir hagsmunir undir og kröfuhafar beittu ýmsum aðferðum til að komast yfir upplýsingar og því væri mikilvægt að þessu yrði haldið í leyni. Ég er vissulega sammála því að þarna eru mjög miklir hagsmunir undir. Ég tel að það sé eitt stærsta hagsmunamál almennings í landinu hvernig takast muni til um að losa höft. Það sem ég tel eiga að vera leiðarljós okkar er að kjör almennings skerðist ekki við slíka aðgerð.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála hæstv. forsætisráðherra um þessa aðferðafræði, að halda áætlunum leyndum, hvort ekki sé mikilvægt að almenningur í landinu sé einmitt upplýstur um hvað standi til, vegna þess að þetta getur haft gríðarleg áhrif á kjör almennings í landinu og mjög mikilvægt að hér skapist almenn og víðtæk sátt um hvað gera skuli og ekki síður hvað eigi að taka við. Hæstv. fjármálaráðherra hefur bent á að það verði að hafa einhverjar reglur um fjármagnsflutninga eftir losun hafta til þess að tryggja stöðugleika krónunnar. Er ekki eðlilegt að við fáum opna umræðu um þetta, ekki bara hér á Alþingi heldur líka gagnvart fólkinu í landinu? Þetta stóra efnahagsmál er hagsmunamál okkar allra.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála um að eðlilegt sé að sveipa málið þessum leyndarhjúp þar sem við lesum fyrst og fremst um það í fjölmiðlum hvað standi hugsanlega til, hvort ekki sé eðlilegra að einmitt ríkisstjórnin opni umræðuna til þess að tryggja að við náum að skapa sem víðtækasta sátt, ekki bara milli okkar á þingi, heldur úti í (Forseti hringir.) samfélaginu öllu, um þetta risavaxna mál.