144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hv. fyrirspyrjandi deilir skoðunum með mér og fleirum. Eins og kemur fram í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 sem samþykkt var hér sl. vor var sérstaklega fjallað um sérstakar aðgerðir á varnarsvæðum. Þar er sagt um brothætt byggðarlög, sem þá voru skilgreind sérstaklega, að það hefði verið yfirmarkmið að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum landsins. Byggðastofnun hefur unnið á grundvelli þeirrar stefnumótunar að útfærslu á þessu verkefni, Brothættar byggðir. Það nær nú til fjögurra byggðarlaga en hugsanlega fjölgar í þeim hópi á þessu ári þó að ekki sé komin endanleg niðurstaða um fjölda þátttakenda. Verkefnið Brothættar byggðir hófst árið 2012 og innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur verið unnið að endurmati á verkefninu með hliðsjón af þeim árangri sem hefur náðst og þeirri reynslu sem hefur safnast. Meðal þeirra atriða sem þarf að skoða er hvaða hlutlægu mælikvarða eigi að leggja til grundvallar á skilgreiningu Brothættra byggða, til hvers konar verkefna sérstökum fjárveitingum skuli ráðstafað. Þannig má segja að þótt meginmarkmiðin liggi fyrir og séu ljós þurfi að skerpa á útfærslunni og útbúa skýrar verklagsreglur. Það er þó umhugsunarvert í þessu efni að þótt vandamálin séu oft lík frá einu byggðarlagi til annars getur þurft sértækar aðgerðir til að leysa mál. Of stífar almennar reglur geta komið í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika.

Varðandi byggðafestu aflaheimilda er það þannig að innan fiskveiðistjórnarkerfisins eru um 5,3% af aflamarki í byggðatengdum verkefnum. Þetta eru almenni byggðakvótinn, aflamark Byggðastofnunar, strandveiðar, línuívilnun, skel- og rækjubætur og þorskeldi. Segja má að nokkur sátt hafi skapast um að þetta sé ásættanlegt hlutfall af heildarmarkinu. Hins vegar skiptir miklu máli að ráðstöfun þessa hlutar sé í stöðugri endurskoðun svo okkur takist sem best að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Nýlega lét ráðuneytið vinna úttekt á reynslu með aflamarki Byggðastofnunar og sýndi sú úttekt að þetta kerfi hefur skilað tilætluðum árangri. Næstu skref, sem eru einnig í undirbúningi, eru að láta framkvæma sams konar úttekt á hinum kerfunum fjórum og í framhaldi af því að taka ákvörðun um hvernig þau geti best þróast á næstunni.

Ég vil í þessu sambandi benda á að tvö sjónarmið vegast þar á þegar talað er um byggðatengingu kvóta, það fyrra með því að ákveðnum arðsemissjónarmiðum sé fórnað, þ.e. ekki er verið að veiða og vinna fisk með eins hagkvæmum hætti og gæti verið. Á móti því sjónarmiði er að sjálfsögðu það að oft getur tiltölulega lítill kvóti tryggt atvinnu og byggðafestu á ákveðnum svæðum. Þá vil ég einnig geta þess að hugsanlega væri hentugra að gera kröfu um að þessi afli verði unninn í heimabyggð en sú krafa er ekki fyrir hendi í dag.

Varðandi verkefnið Brothættar byggðir, hvernig það hafi gengið, þá fór það af stað 2012, eins og kom fram áðan, á Raufarhöfn, í Bíldudal, Breiðdalshreppi og Skaftárhreppi og búið er að gera úttekt á því verkefni í samstarfi við ráðgjafarstofuna Ernst & Young. Niðurstaðna er að vænta á næstu vikum en miðað við þær áfanganiðurstöður sem hafa verið kynntar innan ráðuneytisins er um ótvíræðan árangur að ræða af verkefninu. Hann er mismikill á milli svæða og í framhaldinu þarf að skoða hvaða þættir ráða þar úrslitum, af hverju gengur vel sums staðar en annars staðar verr. Í þessu samhengi er líka mikilvægt að hafa í huga að fjárveitingar til Brothættra byggða hafa einungis numið um 50 millj. kr. á undanförnum árum en eru þó 100 millj. kr. í ár. Jafnvel þó að það sé tekið með er þetta engu að síður enn lítið verkefni.

Varðandi það hvernig hægt sé að efla stuðning við aðrar brothættar byggðir þar sem ekki er einungis sjávarútvegur er fækkun íbúa í sveitum landsins ein af stóru áskorununum í byggðamálum hérlendis. Ljóst er að fækkunin er knúin af kröftum sem eru í sjálfu sér jákvæðir, þ.e. framleiðniaukning er í landbúnaði, það er einn þátturinn, en því miður er það svo í mörgum tilvikum að ekki koma ný tækifæri í stað þeirra sem hverfa. Það er því mjög miður að með þessu móti þynnast sveitir landsins og víða eru að skapast alvarleg vandamál við að halda úti grunnþjónustu á við grunn- og leikskóla.

Verkefnið á borð við Brothættar byggðir getur nýst við að greina vandann og gengið vel sem slíkt og náð fram sjónarmiðum íbúanna, en til að taka á vandanum er líklegra að við þurfum að beita stuðningskerfi landbúnaðarins með sama hætti og við beitum kvótakerfinu þegar um er að ræða sjávarbyggðir. Þannig þarf að stórauka framlög til nýsköpunar og atvinnuþróunar í sveitum í gegnum Framleiðnisjóð eða sambærilegan farveg. Ég vek athygli á að í fiskveiðistjórnarkerfinu eru svokallaðar félagslegar mótvægisaðgerðir, þessi 5,3% sem við vorum að nefna. Ef við tækjum sambærilegan hluta af heildarstuðningi í landbúnaði væru það um 750 milljónir á ári sem við nýttum til búháttabreytinga eða annarrar nýsköpunar í sveitunum.

Að sama skapi mun og getur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitt stuðning til verkefna sem eflt geta ferðaþjónustu í dreifbýli og má meðal annars finna dæmi um slíkt innan verkefnisins Brothættra byggða.

Ég er sammála þingmanninum í því að mikilvægt er að styrkja innviði kerfanna, byggja upp vinnusóknarsvæði. Eitt stærsta verkefnið sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að þessa dagana er ljósleiðaravæðingin sem (Forseti hringir.) mun gjörbreyta allri aðstöðu íbúa til fjarnáms, fjarkennslu og fjarvinnu svo dæmi séu tekin.