144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu. Ég held að það sé hafið yfir vafa að sú aðferðafræði og nálgun sem Byggðastofnun hefur unnið samkvæmt og gengur undir nafninu Brothættar byggðir, hafi skilað árangri og sé framþróun á sviði þess að takast á við byggðavandann í landinu. Að vinna með íbúum byggðanna og vinna sértækt með vandamál þeirra byggða sem eru í veikastri stöðu er tvímælalaust rétt nálgun og hefur skilað árangri. Það sýnir sig líka í þeirri vinnu að það að auka byggðafestu veiðiheimilda, jafnvel þótt aðeins sé um tiltölulega lítið magn að ræða, skilar umtalsverðum árangri og það er verulegur munur á því að veiðiheimildirnar séu tryggðar byggðarlögunum og fiskverkendum og öðrum þeim sem koma við sögu til þriggja til fimm ára en að árleg óvissa ríki um úthlutun þeirra. Bara sá stöðugleiki sem fylgir því að hafa tryggingu til þriggja til fimm ára fyrir einhverju magni veiðiheimilda skapar möguleika til uppbyggingar sem annars væri ómöguleg.

Því miður höfum við orðið fyrir þungum áföllum í þessum efnum á undanförnum missirum og standa þar náttúrlega upp úr þeir staðir sem eru nánast sviðin jörð, að minnsta kosti hvað veiðiheimildir snertir, eftir ákvarðanir Vísis um að flytja allar veiðiheimildir og starfsemi frá Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík. Það er óvissa uppi víðar og má þá nefna Grímsey sem dæmi. Við skulum hafa það í huga er við ræðum þessi mál að fólkið í þessum sjávarbyggðum lítur réttilega ekki svo á að þó að til baka komi nokkur hundraða tonna aðgangur að hinni sameiginlega auðlind þjóðarinnar sé verið að gefa því eitt eða neitt eða rétta því einhverja ölmusu. Þetta snýst um það að skila til baka einhverju broti af þeim aðgangi að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar sem þessi byggðarlög höfðu og hafði byggst upp, í staðinn fyrir þær veiðiheimildir sem hafa (Forseti hringir.) í mörgum tilvikum flust burtu eftir áratugaumsvif í sjávarútvegi í viðkomandi byggðum.