144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:29]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli sem lýtur að búsetu í landinu og uppbyggingu þess til framtíðar. Ég held að þegar kemur að þessum málum séum við flestöll sammála í megindráttum um að við viljum hafa landið okkar í byggð og um mikilvægi þess að þar ríki ákveðin festa og að undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, séu grunnstoðirnar að byggð í landinu. Við vitum líka að störfum hefur fækkað og þau hafa flust frá minni stöðum. Það er stór áskorun að takast á við þá þróun og ljóst er að of lengi hefur ekki verið unnið nægilega markvisst að uppbyggingu og framkvæmd byggðastefnu. Því er mikilvægt að breið samstaða náist um að berjast gegn viðvarandi fólksfækkun í byggðum landsins og fjölga fjölbreyttum störfum um landið. Þess vegna fagna ég því sem hér hefur komið fram, að menn eru sammála um þetta.

Það er mjög jákvætt að nokkur sátt ríki um að 5% aflamarks séu tengd byggðatengdum verkefnum og að sátt sé um það, en það þarf náttúrlega að endurskoða og endurmeta allt þetta og sjá hvernig það nýtist. Það er mjög ánægjulegt að vita að markmiði Byggðastofnunar hefur verið náð. En betur má ef duga skal og mikilvægt er að fleiri þættir séu teknir inn og ekki óeðlilegt að fleiri komi að uppbyggingu viðkvæmra svæða.

Það er því fagnaðarefni að geta sagt núna að vinnuhópur varðandi ljósleiðaravæðingu landsins var að skila af sér í dag. Það er ein af grunnstoðunum og ein leiðin inn í framtíðina til að halda landinu í byggð og ég fagna því að við séum komin á þann stað að við getum farið að tala um það í alvörunni.

Við þekkjum það öll sem búum úti á landi að börnin okkar vilja ekki koma heim. Þau koma ekki heim til að vinna að sínum verkefnum og það er afleitt því að þá sjá þau ekki framtíðina úti um landið. Ég fagna þessu því enn og aftur.