144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Ekki þarf að fletta neinum blöðum um það að þau markmið sem þáverandi stjórnvöld settu sér, þ.e. þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, með því að heimila framsal í fiskveiðistjórnarkerfinu gengu eftir. Við höfum núna hagkvæmari sjávarútveg og erum fyrirmynd annarra þjóða í því hversu vel hefur tekist til í þeim efnum. Þetta var auðvitað markmiðið með framsalinu. Þannig voru þessi vandamál eða áhrif nokkuð fyrirsjáanleg, þ.e. það hlaut að leiða til ákveðinnar samþjöppunar og fækkunar í greininni. Hverjir brugðust þá? Ég held að stjórnvöld hafi brugðist í framhaldinu, þær ríkisstjórnir sem þar komu í framhaldinu brugðust í því að reyna að byggja upp önnur atvinnutækifæri fyrir landsbyggðina samhliða þessu. Ég held að mjög mikilvægt sé að við horfum mikið til þess í dag hvernig við getum brugðist við. Hvað getum við gert? Við horfum núna til dæmis á hvað fiskeldið er að gera fyrir vestan, kalkþörungaverksmiðja sem er fyrir vestan og er að koma í Stykkishólm. Við sjáum hvaða áhrif og væntingar eru bundnar við frumvarp Vinstri grænna um ívilnanir handa stóriðju á Bakka. Það er mikil bjartsýni í kringum það og hefur örugglega mjög jákvæð áhrif þar. Við þurfum ekki annað en að horfa á Fjarðabyggð sem dæmi um góð áhrif af breyttu atvinnumynstri.

Hvað hamlar uppbyggingu á landsbyggðinni í dag? Við höfum verið að hlusta undanfarið á sveitarstjóra sveitarfélaga á Norðurlandi og Austurlandi sem fá ekki rafmagn. Ný atvinnutækifæri sem eru í pípunum, fyrirtæki sem vilja koma á staðinn en það er ekki hægt að afhenda þeim rafmagn af því að við getum ekki flutt til þeirra rafmagn. Við erum líka stopp í virkjunum þannig að það takmarkar okkur mjög einmitt gagnvart landsbyggðinni til að byggja upp viðbótaratvinnutækifæri. Við þurfum að horfa á heildarmyndina í þessu, horfa til nýrra tækifæra fyrir landsbyggðina. Samgöngumál (Forseti hringir.) eru gríðarlega mikilvægur þáttur í þessu þar sem atvinnusvæði munu stækka og fjarskiptamál og þau skref sem er verið að stíga af hálfu núverandi ríkisstjórnar munu breyta gríðarlega miklu.