144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[11:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Á þessum glaða morgni er sannarlega heiður og ánægja að fá að taka þátt í þessari umræðu með þeim vísu mönnum sem hér um véla. Það gleður mig hversu þaulsætinn hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er í sæti sínu undir þessari umræðu sem er auðvitað lykilumræða og mættu margir aðrir ráðherrar, jafnvel honum ofar settir í ríkisstjórninni, af því læra nokkuð. Ég hef ekki haldið ræðu undir þessu máli en hlustað og lært og hef lagt fram mínar skoðanir á ýmsu, eins og hinum tæknilega umbúnaði málsins. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að hafa þetta með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu, að töluvert mikið vald er fært yfir til fjármálastöðugleikaráðs og Seðlabanka. Ég tel það ágætt og ástæðan er sú að ég held að menn geti þá komist hraðar yfir ef þörf krefur.

Ég tek hins vegar undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði fyrr í þessari umræðu, það kemur vel til greina að reisa með einhvers konar lögföstum hætti skorður við því að til dæmis A-hluti sveitarfélaga fái að taka erlend lán.

Ég vil líka segja skýrt eftir þessa umræðu að ég hef fyllstu samúð með hæstv. ráðherra þegar hann flytur þetta mál. Hann gerir það kannski ekki af mikilli gleði. Tilurð málsins er auðvitað sú að ESA hefur sveiflað vendi sínum yfir okkur og fundið að því banni sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili og hæstv. ráðherra er að svara því. Yfir vofa málaferli. Hér hefur komið fram sú skoðun af hálfu ýmissa þingmanna að það ætti að láta á þetta reyna. Ég segi það, þó að hæstv. ráðherra sé í öðrum flokki en ég, að honum er treyst til að fara með fjármálin fyrir hönd ríkisins og ef hann og hans sérfræðingar hafa lesið og yfirfarið málið og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fararinnar virði að láta á málsefnin reyna með tilliti til þess að við erum aðilar að EES styð ég hann í því. Ef það er í þágu íslenskra hagsmuna hlítum við forustu hans í því. Ég hef enga trú á að hann sé annað að gera en láta bestu hagsmuni Íslands ráða.

Eins og hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan er spurningin um það hvernig við vörðum þessa leið sem við erum að fara. Hæstv. ráðherra verður við tilmælum ESA þannig að hann ætlar að leyfa þessi gengistryggðu og erlendu lán en er þó í reynd, að því er virðist, að reyna að ná því marki að banna þau. Gott og vel, ég hef gert athugasemdir á fyrri stigum máls sem ég hef nú hugsað betur og tel — og bið hæstv. ráðherra að fara ekki á meðan ég kem að þeim hluta ræðunnar — að það séu ákveðnir skavankar á þessu frumvarpi. Hæstv. ráðherra hefur eðlilega sagt að ef menn fara þá leið að leyfa lán af þessum toga verði með tilliti til reynslusögu Íslendinga að búa svo um hnúta að það geti ekki aftur leitt til þess að þjóðin kollsteypist. Besta leiðin til þess er að mati ráðherrans, og ég held líka flestra þeirra sem hér hafa tekið til máls, að þeir einir megi þá taka slík lán sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Það segir í reynd þá að það eru fyrirtæki í útflutningi. Ég get fallist á það og er sammála ráðherranum fram að þessum punkti. En svo sagði ráðherrann, þó að það komi ekki jafn skýrt fram í frumvarpinu, að hann væri þeirrar skoðunar að þeir sem hefðu nægilega sterkar eignir og miklar til að geta tekið á sig gengissveiflur mættu líka fara þessa leið. Hann orðaði það þannig að hann vildi að þeir mættu njóta vafans. Það hlýtur þá að vera að þeir sem megi njóta vafans séu ekki bara einstaklingar sem eru sterkríkir og hafa engar tekjur í gjaldmiðlum heldur líka fyrirtæki sem eru miðað við stærð nægilega vel efnum búin til að þau gætu hugsanlega líka afsett eignir. Ef það gerist og síðan verða gengissveiflur sem leiða til þess að menn þurfa að afsetja eignir fara þeir auðvitað að keppa um gjaldeyri á markaði. Það leiðir til þess að krónan veikist og leiðir til þess að kjör okkar hinna sem ekki fáum að fara þessa leið, góðu heilli, veikjast líka. Ég leyfi mér að segja að sú hjáleið sem hæstv. ráðherra er að búa til getur haft skaðleg (Forseti hringir.) áhrif á hina og þegar ég tengi það bónusfyrirkomulagi sem verið er að leyfa með frumvarpinu sem við ræddum í gær óttast ég svolítið að þessi leið hæstv. ráðherra sé rétt.